Innlent

Krafa um að dómari í máli um endurupptöku al-Thani-málsins víki

Kjartan Kjartansson skrifar
Ólafur var hluthafi í Kaupþingi og var dæmdur fyrir markaðsmisnotkun í máli sem tengdist sjeiknum al-Thani af Katar.
Ólafur var hluthafi í Kaupþingi og var dæmdur fyrir markaðsmisnotkun í máli sem tengdist sjeiknum al-Thani af Katar. Vísir/Vilhelm
Ólafur Ólafsson hefur lagt fram kröfu um að Vilhjálmur Vilhjálmsson landsréttardómari víki sæti í máli þar sem hann krefst þess að al-Thani-málið svonefnda verði tekið upp aftur. Vísar Ólafur meðal annars til vinskapar Vilhjálms við fyrrverandi forseta Hæstaréttar sem dæmdi í al-Thani-málinu.

Ríkisútvarpið greinir frá kröfu Ólafs en málflutningur fór fram um hana í Landsrétti í dag. Ólafur höfðaði mál gegn embætti ríkissaksóknara og íslenska ríkinu til þess að fá al-Thani-málið tekið upp aftur. Hann var hluthafi í Kaupþingi og var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir markaðsmisnoktun í Hæstarétti í febrúar árið 2015.

Krafan um að Vilhjálmur stígi til hliðar byggir meðal annars á því að dómarinn sé vinur Markúsar Sigurbjörnssonar, fyrrverandi forseta Hæstaréttar. Þá hafi sonur Vilhjálms, Finnur Vilhjálmsson, gert svonefnda Hauck & Aufhäuser-skýslu um einkavæðingu Búnaðarbankans. Í henni hafi verið fjallað um þátt Ólafs í kaupum á bankanum. Auk þess hafi annar sonur Vilhjálms, Ingi Freyr Vilhjálmsson, skrifað fjölda frétta um Ólaf í gegnum tíðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×