Innlent

Úttekt á vinnustaðamenningu Orkuveitunnar hafin

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
vísir/vilhelm
Úttekt á vinnustaðamenningu og tilteknum starfsmannamálum hjá Orkuveitur Reykjavíkur er hafin og er stefnt á að þeirri vinnu verði lokið í nóvember. Ekki liggur fyrir hver aflar gagna innan Orkuveitunnar en lögfræðingur fyrirtækisins kemur þeim til Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar.

Innri endurskoðun á vinnustaðamenningu og tilteknum starfsmannamálum Orkuveitunnar er skipt í fjóra hluta og koma nokkrir aðilar að úttektinni.

„Við erum búin að leggja áætlun fyrir stjórn Orkuveitunnar um það hvernig við höfum þessu, tímaáætlun og verkhluta. Við skiptum þessu í fjóra verkhluta, það er að segja umhverfi Orkuveitunnar, mannauðsmálin, Orka náttúrunnar og svo vinnustaðamenningin,“ segir Hallur Símonarson, innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar.

Úttektin er að mestu unnið með viðtali við aðila máls og með því að fá gögn úr starfsmannahaldi Orkuveitunnar.

„Þeir sem koma að þessari vinnur eru Innri endurskoðun, Félagsvísindastofnun, fólk úr háskólasamfélaginu og það eru ráðgjafar og er á okkar plani, það sem við lögðum fyrir stjórn og samþykkt var á föstudag, það var að ljúka þessu verkefni í byrjun nóvember,“ segir Hallur.

Til að afla gagna var Innri endurskoðun úthlutaður tengiliður sem er lögfræðingur Orkuveitunnar og fer gagnaöflun úttektaraðila fram í gegnum hann. Hver aflar svo gagna innan Orkuveitunnar og dóttur fyrirtækja liggur hins vegar ekki fyrir og spurning hvort aðilar máls þurfi í einhverjum tilfellum að afla gagna um sjálfan sig fyrir innri endurskoðun.

Er ekki óeðlilegt að aðilar máls komi að gagnaöflun í þessu máli?

„Nú lít ég ekki þannig á að svo sé. Við þurfum auðvitað að afla gagna og þau liggja fyrir hjá Orkuveitunni og við verðum að hafa aðgang að þeim,“ segir Hallur.


Tengdar fréttir

Ólga meðal starfsfólks Orkuveitu Reykjavíkur

Starfsmannafundur var haldinn í OR í gær vegna þeirrar stöðu sem komin er upp innanhúss. Svör starfsmannastjóra við spurningum vöktu furðu starfsfólks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×