Innlent

Sáu fram á eldsneytisskort og lentu á Akureyri

Andri Eysteinsson skrifar
Flugi FI335 var flogið til Akureyrar og tók þar eldsneyti.
Flugi FI335 var flogið til Akureyrar og tók þar eldsneyti. VÍSIR/VILHELM
Vél Icelandair frá Noregi neyddist til að lenda á Akureyrarflugvelli í dag.

Eins og Vísir fjallaði um fyrr í dag þurfti að stöðva lendingar á Keflavíkurflugvelli á öðrum tímanum í dag. Ástæða þess var sú að glussi hafði lekið úr einni af vélunum sem lent höfðu á vellinum.

Ekki var hægt að lenda öðrum vélum fyrr en að þrifið hefði verið.  Flugvélum var því gert að hringsóla á meðan beðið var eftir lendingarleyfi. Vél Icelandair, FI 335 á leið frá Björgvin í Noregi til Keflavíkur hélt þó rakleitt norður á Akureyri og lenti þar.

Upplýsingafulltrúi Icelandair, Guðjón Arngrímsson sagði í samtali við Vísi að vélin hafi verið síðust í lendingarröðinni, en ellefu vélar þurftu að bíða lendingar.

Því hafi verið útséð að eldsneytið sem var á vélinni myndi ekki duga til þess hringsóls því var tekið til þess ráðs að fljúga norður og fylla á eldsneytistankana þar.

Farþegar þurftu þó ekki að koma sér til áfangastaðar frá Akureyri en skömmu eftir að fyllt hafði verið á tanka vélarinnar var haldið aftur af stað til Keflavíkur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×