Innlent

Í maraþonið fóta- og handalaus

Kristín Ýr Gunnarsdóttir skrifar

Hinn kanadíski Christofer Koch er fatlaður ævintýramaður sem fæddist handa- og fótalaus og getur ekki notast við gervi útlimi. Hann tók þátt í sínu fyrsta maraþoni árið 2016 og er núna komin til íslands til að taka þátt í því sjötta.

Christofer er ævintýragjarn heimshornaflakkari. Hann er þekktur fyrirlesari og hefur jákvæða sýn á lífið þrátt fyrir meðfædda fötlun sína, en hann fæddist fóta og handalaus. Hann byrjaði að taka þátt í keppnishlaupum fyrir rúmum þremur árum en sökum fötlunar sinnar þá nýtir hann hjólabretti til að koma sér á milli staða og rúllar á því þessa 42 kílómetra sem maraþon er.

Hann segir fjölskyldu sína hafa kennt sér að setja fötlunina aldrei fyrir sig og með það veganesti eru honum flestir vegir færir.

En afhverju ætli hann velji að fara í maraþon? „Ég segi fólki að ég sé miklu hræddari við eftirsjá en mistök. Ég vil ekki horfa til baka og segja: Ég vildi að ég hefði gert þetta, ég hefði átt að prófa þetta. Ég vil líta til baka og segja: Ég gerði eins margt og ég mögulega gat. Það heppnaðist kannski ekki allt en ég reyndi þó,” segir hann.

Ísland hefur alltaf verið á listanum yfir draumastaði til að heimsækja og fannst honum því kjörið að nýta heimsóknina og fara í Reykjavíkurmaraþonið. Hann segist geta komist nokkuð hratt áfram á hjólabrettinu. Hann hvetur fólk til að lifa lífinu til fullnustu og ekki láta neitt stoppa sig. Því ef hann getur, þá geta aðrir.

„Ég vil segja um morgundaginn að ég ætla ekki að reyna að slá persónulegt met mitt. Ég mæti bara til að skemmta mér. Þetta er góð leið til að fara um borgina og um leið að takast á við erfiða þraut“ segir hann fullur tilhlökkunar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.