Innlent

Bæjarstjórinn sleppur við rafbíl og heldur jeppanum

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ.
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ.

Bæjarstjórn Garðabæjar felldi á fimmtudag tillögu um að fella bifreiðahlunnindi Gunnars Einarssonar bæjarstjóra Garðabæjar úr ráðningarsamningi hans.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í vikunni gagnrýndi Ingvar Arnarson, bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans, laun bæjarstjórans og þá staðreynd að áfram verði honum séð fyrir Toyota Land Cruiser jeppa á kostnað bæjarins. Ingvar lagði því til að fella þessi bifreiðahlunnindi út enda væri um að ræða óþarfa aukakostnað fyrir skattgreiðendur og að laun bæjarstjórans, upp á rúmar 2,2 milljónir á mánuði, dygðu vel fyrir rekstri á eigin bifreið. Þessa tillögu felldi meirihlutinn.

Til vara lagði Ingvar til þær breytingar að bærinn útvegaði bæjarstjóranum rafmagnsbíl í staðinn fyrir jeppann. Garðabæjar­listinn teldi mikilvægt að fylgja umhverfisstefnu bæjarins og að bæjarstjórinn færi fyrir með góðu fordæmi í þeim efnum með því að nota umhverfisvænan samgöngumáta. Þessi tillaga var einnig felld sem og þriðja tillagan um að fella út greiðslu fastrar yfirvinnu samkvæmt ráðningarsamningnum í sex mánuði eftir starfslok.

Kaup og kjör bæjarstjórans standa því óhögguð og teljast samþykkt af bæjarstjórn. Fréttablaðið fjallaði um ráðningarsamninginn í vikunni og hvernig ákveðið hefði verið að lækka laun bæjarstjórans um tíu prósent. Var það gert eftir að í ljós kom að honum var ekki heimilt að afsala sér launum sem hann á rétt á sem kjörinn bæjarfulltrúi en Gunnar hafði viðrað slíkar hugmyndir eftir kosningar í ljósi umræðu um há laun hans og annarra bæjarstjóra. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.