Innlent

Dagur málaði gleðirendur með stjórn Hinsegin daga

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Hinsegin dagar í Reykjavík hófust á hádegi í dag.
Hinsegin dagar í Reykjavík hófust á hádegi í dag. Vísir/Vilhelm
Hinsegin dagar hófust á hádegi í dag þegar Dagur B. Eggertsson borgarstjóri málaði fyrstu gleðirendurnar á Skólavörðustíg ásamt stjórn hinsegin daga. Í framhaldinu verður svo Skólavörðustígur, frá  frá Bergstaðastræti að Laugavegi/Bankastræti, málaður í öllum litum regnbogans af gestum og gangandi undir leiðsögn starfsfólks Reykjavíkurborgar.

Regnbogamálun Hinsegin daga er orðinn fastur liður sem setningarathöfn hátíðarinnar. Þetta er í annað sinn sem Skólavörðustígurinn er málaður en það er ekki að ástæðulausu að regnboginn fær þar aftur heimili á 40 ára afmælisári Samtakanna ’78, félags hinsegin fólks. Gatnamót Skólavörðustígs og Bergstaðastrætis eru tengdari baráttu hinsegin fólks en marga grunar en nánar verður fjallað um það í setningarræðu formanns Hinsegin daga á morgun. Áður hafa tröppur Menntaskólans í Reykjavík og heimreið Ráðhúss Reykjavíkur verið klædd regnboga í tilefni Hinsegin daga. 

Hinsegin dagar hafa verið haldnir árlega í Reykjavík frá árinu 1999Vísir/Vilhelm
Hinsegin dagar hafa verið haldnir árlega í Reykjavík frá árinu 1999. Í ár standa Hinsegin dagar frá 7. til 12. ágúst og á dagskránni eru ríflega 30 viðburðir af ýmsum toga. Undanfarin ár hafa um 70.000 til 100.000 gestir tekið þátt í dagskrá Hinsegin daga í tengslum við gleðigönguna og búast skipuleggjendur við miklum mannfjölda í ár.

Hinsegin dagar ná hápunkti sínum laugardaginn 11. ágúst með gleðigöngu og útihátíð. Að þessu sinni fer gleðigangan frá Sæbraut við tónlistarhúsið Hörpu að Hljómskálagarðinum þar sem útihátíð ársins fer fram.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.