Regnbogamálun Hinsegin daga er orðinn fastur liður sem setningarathöfn hátíðarinnar. Þetta er í annað sinn sem Skólavörðustígurinn er málaður en það er ekki að ástæðulausu að regnboginn fær þar aftur heimili á 40 ára afmælisári Samtakanna ’78, félags hinsegin fólks. Gatnamót Skólavörðustígs og Bergstaðastrætis eru tengdari baráttu hinsegin fólks en marga grunar en nánar verður fjallað um það í setningarræðu formanns Hinsegin daga á morgun. Áður hafa tröppur Menntaskólans í Reykjavík og heimreið Ráðhúss Reykjavíkur verið klædd regnboga í tilefni Hinsegin daga.

Hinsegin dagar ná hápunkti sínum laugardaginn 11. ágúst með gleðigöngu og útihátíð. Að þessu sinni fer gleðigangan frá Sæbraut við tónlistarhúsið Hörpu að Hljómskálagarðinum þar sem útihátíð ársins fer fram.