Lífið

Reyndi að ná góðri Instagram-mynd en var bitin af hákarli

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ein af myndunum af atvikinu sem tengdafaðir Zarutskie festi á filmu. Sauma þurfti nokkur spor í handlegg Zarutskie eftir árás hákarlsins.
Ein af myndunum af atvikinu sem tengdafaðir Zarutskie festi á filmu. Sauma þurfti nokkur spor í handlegg Zarutskie eftir árás hákarlsins. Mynd/Tom Bates

Fyrirsætan og neminn Katarina Zarutskie komst í hann krappann í síðasta mánuði þegar hún reyndi að ná góðri mynd af sér fyrir Instagram í fríinu.

Hin 19 ára Zarutskie var stödd á Bahamaeyjum, nánar tiltekið á Exuma-eyjaklasanum, og kom þar auga á fólk sem hafði stungið sér til sunds með nokkrum hákörlum. Hákarlarnir eru almennt gæfir og eru vinsælt myndefni ferðamanna á svæðinu. Zaruitskie ákvað því að ná mynd af sér með hákörlunum og skellti sér út í sjó, að fyrirmynd fjölda fólks ef marga má myndir frá svæðinu á Instagram.

Ekki fór betur en svo að einn hákarlinn réðst til atlögu og beit Zarutskie í handlegginn. Árás hákarlsins náðist á myndum sem vakið hafa mikla athygli á samfélagsmiðlum. Zarutskie hlaut nokkuð stórt sár í átökunum en varð að öðru leyti ekki meint af viðskiptum sínum við dýrið.

Eftir að fjallað var um myndirnar í bandarískum fjölmiðlum hefur Zarutskie, sem er alin upp í Kaliforníu, greint frá því að henni hafi borist fjöldi andstyggilegra athugasemda. Margir hafa sakað hana um grunnhyggni og þá þvertekur hún fyrir að hafa farið út í sjóinn þvert á boð og bönn.

Hún hefur nú lokað Instagram-reikningi sínum fyrir ókunnugum en fjöldi kvenna hefur neyðst til að gera slíkt hið sama undanfarin misseri. Vísir greindi frá því síðast í gær að ung kona, sem varð óafvitandi viðfang „ástarsögu í beinni“, var hrakin af samfélagsmiðlum vegna áreitni af hálfu netverja.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.