Innlent

Tvö miðaldahandrit Íslendinga koma til landsins

Atli Ísleifsson skrifar
Ormsbók Snorra-Eddu verður til sýnis á Listastafni Íslands síðar í sumar.
Ormsbók Snorra-Eddu verður til sýnis á Listastafni Íslands síðar í sumar. Fréttablaðið/GVA / Wikipedia
Tvö af helstu miðaldahandritum Íslendinga verða flutt með vél Icelandair frá Kaupmannahöfn, þar sem þau eru varðveitt, til landsins í dag. Handritin eru flutt tímabundið til landsins í tilefni af sýningunni Lífsblómið – Fullveldi í 100 ár sem opnuð verður í Listasafni Íslands þann 18. júlí í tilefni aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands.

Handritin sem um ræðir eru Ormsbók, eitt af höfuðhandritum Snorra Eddu, og Reykjabók Njálu, elsta nær heila handrit sögunnar og eina handrit hennar sem enn er varðveitt í Kaupmannahöfn, að því er segir í tilkynningu frá skrifstofu Alþingis. Handritin munu verða í öndvegi á sýningunni.

„Á Keflavíkurflugvelli tekur sérsveit Ríkislögreglustjóra við handritunum og flytur þau í Árnastofnun þar sem Guðrún Nordal forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum veitir þeim viðtöku og varðveitir þar til sýningin Lífsblómið opnar. Klukkan 16.30 mun Guðrún opna handritakassana og segja stuttlega frá handritunum.

Fljótlega eftir að Ísland varð lýðveldi árið 1944 hófust viðræður við Dani um að öll íslensk miðaldahandrit sem varðveitt væru í Kaupmannahöfn skyldu flutt til Íslands. Tíu árum síðar hófust samningaviðræður milli þjóðanna um afhendingu íslenskra handrita. Árið 1961 náðist samkomulag um að handrit skrifuð á íslensku með efni sem varðaði Ísland og íslensk málefni sérstaklega yrðu flutt til Íslands en önnur íslensk miðaldahandrit yrðu áfram varðveitt í Kaupmannahöfn. Vorið 1971 komu fyrstu tvö handritin heim til Íslands, Flateyjarbók og Konungsbók Eddukvæða,“ segir í tilkynningunni.

Vélin lendir klukkan 15:10 á Keflavíkurflugvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×