Lífið

Fílharmónían og Tólfan vekja athygli í skyrauglýsingu í Rússlandi

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Nota landsliðstreyjuna og víkingaklappið til að kynna skyr fyrir Rússum.
Nota landsliðstreyjuna og víkingaklappið til að kynna skyr fyrir Rússum. Skjáskot/Facebook
Söngsveitin Fílharmónían syngur ásamt meðlimum Tólfunnar í nýrri auglýsingu fyrir Ísey Skyr sem sýnd er í Rússlandi um þessar mundir. Framleiðsla er hafin á Ísey Skyri í Rússlandi og eru vörurnar væntanlegar í verslanir þar í kringum mánaðarmótin. Hópurinn er klæddur í landsliðstreyjur í auglýsingunni og auðvitað er víkingaklapp í lokin.

Ísey Skyr sem er í eigu Mjólkursamsölunnar verður komið í hillur nokkurra verslunarkeðja í Moskvu og Pétursborg um næstu mánaðamót. Rússneska félagið IcePro LLC,  sem er í meirihlutaeigu Kaupfélags Skagfirðinga, mun standa á bak við framleiðsluna samkvæmt fréttatilkynningu frá MS. Markmiðið er að ná 5.000 tonna ársframleiðslu fyrir rússlandsmarkað innan þriggja ára. Til samanburðar eru framleidd árlega um 3.000 tonn af skyri á Íslandi.

Þegar landsliðið kom til Rússlands biðu hópsins 600 dósir af Ísey Skyri. Þær kláruðust allar og áttu þeir að fá nýja sendingu af skyri í gær. Kokkum landsliðsins hefur einnig tekist að útvega smá íslenskan fisk og þess utan náðist að redda íslensku lambi í eina máltíð þó svo að það sé viðskiptabann. 


Fleiri fréttir

Sjá meira


×