Innlent

Ríkislögreglustjóri sendir fimm menn til Rússlands

Birgir Olgeirsson skrifar
Í tilkynningu frá embættinu kemur fram að embættið verði virkt á samfélagsmiðlum en þar verður upplýsingum miðlað til stuðningsmanna.
Í tilkynningu frá embættinu kemur fram að embættið verði virkt á samfélagsmiðlum en þar verður upplýsingum miðlað til stuðningsmanna. Vísir/EPA
Fimm lögreglumenn á vegum embættis ríkislögreglustjóra verða sendir til Rússlands í tilefni af heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu í Rússlandi í sumar. Tveir lögreglumenn munu starfa í alþjóðlegri stjórnstöð löggæslu í Moskvu en þar eiga sæti fulltrúar frá öllum þeim löndum sem taka þátt í mótinu. Þá munu þrír lögreglumenn fylgja liðinu á þá staði sem Ísland keppir á og munu þeir fylgja rússneskum lögreglumönnum við eftirlit í kringum stuðningsmannasvæði og leikvang.

Hlutverk lögreglumannanna verður að aðstoða rússnesk yfirvöld við að halda uppi öryggi á meðan á mótinu stendur þannig að upplifun stuðningsmanna geti orðið sem ánægjulegust fyrir alla. Ríkislögreglustjóri mun verða í nánu og góðu samstarfi við utanríkisráðuneytið, sendiráð Íslands í Moskvu, Tólfuna og KSÍ við að safna og miðla gagnlegum upplýsingum til stuðningsmanna.

Í tilkynningu frá embættinu kemur fram að embættið verði virkt á samfélagsmiðlum en þar verður upplýsingum miðlað til stuðningsmanna. Upplýsingar verða aðallega birtar á Facebook síðu embættisins og hægt verður að vera í sambandi við lögreglumenn í stjórnstöð í gegnum þá síðu til að senda fyrirspurnir eða koma ábendingum á framfæri.

Þá verður einnig haldið úti Instagram síðu þar sem birtar verða myndir frá starfi lögreglumannanna í stjórnstöð og í kringum stuðningsmannasvæði og leikvanga. Jafnframt verður Twitter notað til að koma skilaboðum áleiðis. Þeir sem eru á leið til Rússlands eru hvattir til að gerast áskrifendur að þessum síðum og fylgjast náið með því sem þar verður birt.

Facebook síðu ríkislögreglustjóra má finna á slóðinni: https://www.facebook.com/rikislogreglustjorinn

Instagram reikninginn má finna á slóðinni: https://www.instagram.com/rikislogrstj

Twitter reikning má finna á slóðinni: https://twitter.com/rikislogrstj eða @rikislogrstj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×