Innlent

Ásta er ósátt við MAST: „Við erum hætt hundarækt“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Ásta Sigurðardóttir hundaræktandi í Dalsmynni.
Ásta Sigurðardóttir hundaræktandi í Dalsmynni. VÍSIR/GVA
Ásta Sigurðardóttir eigandi hundaræktunarinnar í Dalsmynni er gríðarlega ósátt við tilkynningu Matvælastofnunar um stöðvun starfsemi Hundaræktarinnar ehf. Eins og kom fram á Vísi fyrr í dag var ákvörðunin tekin á grundvelli laga um velferð dýra. Ásta segir að hún hafi sjálf tekið ákvörðun um að hætta með hundaræktun í Dalsmynni og það hafi ekki verið vegna Matvælastofnunar. 

„Ég var svo hissa að ég átti bara ekki til orð,“ segir Ásta í samtali við Vísi. „Við létum lögfræðinginn okkar senda MAST tilkynningu um það að Hundaræktun ehf væri hætt. Sko við erum komin á áttræðisaldur hjónin og höfum verið að trappa niður svona og erum núna bara með heimilishunda. En svo kemur þessi rosalega klausa,“ segir Ásta í samtali við Vísi.

Hefur ræktað hunda í 26 ár

Matvælastofnun hefur tekið ákvörðun um stöðvun starfsemi Hundaræktarinnar í Dalsmynni á grundvelli laga um velferð dýra. Ástæða stöðvunar er að kröfur stofnunarinnar um varanlegar úrbætur hafa ekki verið virtar. Samkvæmt tilkynningu frá Matvælastofnun var það einkum varðandi þjálfun, umönnun og umhirðu hundanna, þar með talið hreinlæti og skráningar. Viðhaldi húsnæðis var sömuleiðis ábótavant. Aðgerðir og áætlanir vegna ormameðhöndlunar hunda ásamt sýnatökum voru sömuleiðis ekki fullnægjandi.

Ásta segir að það sé engin hundarækt í Dalsmynni núna og hún ætli að breyta þessu húsnæði. Hún hafi skilað inn kennitölunni í janúar eða febrúar á þessu ári.

„Nei við erum hætt hundarækt og ætlum bara að búa til íbúðir úr þessu húsi. Við höfum verið með eitt og tvö got á ári, það hefur ekkert verið meira. En svo er ég með heimasíðu og við erum náttúrulega búin að selja hunda úti um allt land, ég er búin að vera í 26 ár að rækta hunda. Það er fólk byrjað að rækta undan hundunum sem við höfum selt og fólk hringir í mig og biður mig að setja inn á heimasíðuna og auglýsa fyrir sig og það ætlum við að halda áfram að gera, hjálpa þeim eins og ég get. Ég hef svo gaman af dýrum.“

Hún segist vera í mjög góðum samskiptum við fólk sem hafi fengið hunda í Dalsmynni. Aðspurð gat Ásta ekki gefið upp hversu margir hvolpar hafi verið ræktaðir og seldir í Dalsmynni.

„Ég bara veit það ekki. Ég á orðið marga mjög góða vini í gegnum dýrin mín. Ég er bara svo hissa á því að MAST er að blása þetta út. Þeir eru að tala um að fara með hundana í saursýni, ég er með pappíra um að ég hef farið með hundana reglulega í saursýni.“

Matvælastofnun setti í dag stöðvun á hundaræktun í Dalsmynni. Ekki er vitað hversu margir hvolpar hafa verið seldir þaðan. Vísir/Pjetur

„Ekki mér að kenna“

Matvælastofnun hefur áður haft afskipti af starfseminni og um endurtekin brot er að ræða samkvæmt tilkynningunni.

Dreifingarbanni Matvælastofnunar árið 2014 var aflétt þegar kröfum stofnunarinnar um úrbætur hafði verið sinnt og gripið hafði verið til nauðsynlegra aðgerða til halda niðri smiti af völdum þráðorma og annarra iðrasýkinga sem greinst hafa þar,“ segir meðal annars í tilkynningu Matvælastofnunar.

Óheimilt verður að nýta húsin undir hundahald nema að undangenginni úttekt stofnunarinnar þar sem viðhald og ástand húsa sem notuð hafa verið undir starfsemina er ekki viðunandi m.t.t. þrifa og sótthreinsunar, sérstaklega út frá smiti með orminum Strongyloides stercoralis.

„Það kom upp ormur hérna, ég flutti inn Cavalier og með honum barst ormur hingað úr einangruninni. Ég fékk ekki tilkynningu frá MAST um að það hefði fundist ormur í honum fyrr en eftir tvö ár. Þá var ég beðin um að fara með saursýni og þá var það komið í Cavalierinn og við lóguðum þeim bara,“ segir Ásta.  Þurfti að hennar sögn að lóga fjórum hundum vegna ormsins.

„Þessi ormur hafði aldrei fundist hér áður og þetta var ekki mér að kenna, þetta kemur úr einangrun. Það eru komin rosalega mörg ár síðan en þeir eru alltaf að staglast á þessum sama ormi [...] Ég get sagt þér það að tvisvar sinnum hefur starfsmann hér. Þeir segja að hundarnir fái enga athygli. Dóttir mín og dóttir hennar, hún er sko atferlisfræðingur, hún hefur hlaupið með hundana og verið að kenna þeim hitt og þetta. Þetta er náttúrulega ólíðandi þegar svona stofnun gengur fram með ofbeldi.“

Ásta ætlar að útbúa íbúðir í húsinu.Vísir/Arnar Halldórsson

Hvolparnir aðeins í pössun

Ásta segir að Matvælastofnun hafi síðast komið í heimsókn fyrr á þessu ári, en þá var hún sjálf ekki á svæðinu svo sonur hennar sýndi þeim aðstæður.   

„Ég var nú ekki heima þegar þeir komu, ég var hjá lækni. Ætli það séu ekki komnir þrír mánuðir, ég man það ekki. Við sjálf höfum ekki verið með got, ætli það sé ekki langt langt síðan, upp undir ár síðan. Við hættum sjálf, það er eins og MAST sé að blása það út að þeir banni þetta en við skiluðum inn kennitölunni og hættum. Það er fullt af fólki að rækta hunda í heimahúsum og bílskúrum og það er ekkert skipt sér af þeim. En það hefur alltaf staðið styr um Dalsmynni. Eins og við séum að pína dýrin okkar, eins og ég elska þau.“

Hvolpagot var í Dalsmynni þegar Matvælastofnun skoðaði síðast aðstæður fyrr á þessu ári. Ásta segir að þeir hafi þó aðeins verið þar í pössun.  

„Dóttir mín var með nokkra hvolpa hérna. Hún býr á Akranesi, ég passaði fyrir hana, hún þurfti að skreppa frá. Hún var komin hér á staðinn og tók hundana og fór með þá. Þetta var bara eitt got.“

Með ákvörðun Matvælastofnunar er starfsemin í hundahúsum að Dalsmynni bönnuð, þar með talið innflutningur hunda, pörun, ræktun, got og annað hundahald sem ætlað er til ræktunarinnar eða tengist starfseminni, sem og pössun og geymsla á hundum. Ásta segir að hún ætli að láta lögfræðing sinn hafa samband við Matvælastofnun vegna málsins.

„Mér finnst þetta bara ljótt af þeim að setja þetta svona í fjölmiðla.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.