Innlent

Oddviti Flokks fólksins: „Viljum koma fólki í skjól og undir þak“

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Flokkur fólksins býður í fyrsta skipti fram lista fyrir borgastjórnarkosningar í ár og kynnti Inga Sæland, formaður flokksins, frambjóðendur í dag. Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur, mun leiða listann en hún var áður varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hún segir stefnu Flokks fólksins ríma betur við hugmyndafræði hennar og tilfinningar enda setji flokkurinn fólk í forgang.

„Þetta fann ég ekki hjá Sjálfstæðisflokknum á sínum tíma. Þar var fólk ekki sett í forgang en það gerir Flokkur fólksins svo sannarlega. Við viljum koma fólki í skjól og undir þak í Reykjavík,“ segir Kolbrún.

Önnur stefnumál flokksins er að koma leikskólamálum í réttan farveg en Kolbrún segir borgarstjórn hafa sofið á verðinum síðustu átta ár í þeim málum. En hvernig vill flokkurinn gera betur?

Karl Berndsen segist hafa upplifað mikið fall úr glamúrnum yfir á örorkubætur þegar hann fékk krabbamein.visir/sigurjón
„Við viljum forgangsraða. Það eru peningar til en það er bara spurning hvernig við notum þá. Það þýðir auðvitað að rándýr verkefni verðia að fara neðar á listann. Til dæmis Borgarlínan, við erum ekki á móti Borgarlínu en við viljum raða þessu upp á nýtt.“



Karl Berndsen, hárgreiðslumeistari, er í öðru sæti listans. Hann segir fallið hafa verið hátt þegar hann varð öryrki vegna krabbameins og þá hafi hann séð að styðja þurfi betur við fátæka, öryrkja og heimilislausa. Nefnir hann aðbúnað, aðgöngumál og hjúkrunarheimili.



„Það er svo margt sem má gera fyrir þá sem eru minnimáttar. Ég hugsaði bara með mér, þú ferð ekki að leggjast niður og sitja heima og prjóna, þannig að ég ákvað að láta til mín taka og stefnumál Flokks fólksins höfða til mín," segir hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×