Innlent

Aðstandendur Hauks Hilmarssonar kröfðust fundar með ráðherra

Birgir Olgeirsson skrifar
Aðstandendur Hauks Hilmarsson fyrir utan utanríkisráðuneytið fyrr í kvöld.
Aðstandendur Hauks Hilmarsson fyrir utan utanríkisráðuneytið fyrr í kvöld. Jóhann K. Jóhannsson
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra mun eiga fund með aðstandendum Hauks Hilmarssonar, sem er sagður hafa fallið í stríðsátökum í Sýrlandi í febrúar síðastliðnum, á morgun. Aðstandendurnir áttu fund með embættismönnum ráðuneytisins fyrr í dag.

Eva Hauksdóttir, móðir Hauks, sagði á Facebook fyrr í dag að vísa ætti aðstandendum Hauks úr ráðuneytinu. Þegar fréttastofa Vísis og Stöðvar 2 mætti fyrir utan ráðuneytið á sjöunda tímanum í kvöld stóð hópurinn fyrir utan ráðuneytið og var þá búið að samþykkja fund með ráðherranum.

Haukur barðist með YPG, her sýrlenskra Kúrda, í Afrinhéraði í Sýrlandi.

Fulltrúar útlagastjórnar sýrlenskra Kúrda í Afrinhéraði afhentu móður Hauks Hilmarssonar, Evu Hauksdóttur, skjöl í Glasgow á föstudag þar sem staðfest er að Haukur hafi fallið í loftárás Tyrkja í Sýrlandi þann 24. febrúar.

Þegar fréttastofa reyndi að afla upplýsinga um efni fundar aðstandenda Hauks og ráðherra á morgun fengust ekki skýr svör en svo virðist vera að aðstandendur Hauks gagnrýni úrræðaleysi íslenskra stjórnvalda við að afla upplýsinga um örlög Hauks.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra staðfestir í samtali við Vísi að hann muni eiga fund með aðstandendum Hauks á morgun.

„Borgaraþjónustan okkur hefur verið að gera hvað hún getur til að aðstoða aðstandendur og það er það sem menn vilja ræða,“ segir Guðlaugur Þór.

„Alveg frá því þetta mál kom upp hefur ráðuneytið gert sitt ítrasta í málinu og mun halda því áfram.“


Tengdar fréttir

Telja lík Hauks enn vera í þorpinu þar sem hann féll

Fulltrúi útlagastjórnar sýrlenskra Kúrda í Afrin segir lík Hauks ennþá vera í þorpinu þar sem hann féll en kveðst í samtali við fréttastofu hvorki geta sagt af né á um hvort fleiri Íslendingar hafi gengið til liðs við hersveitir kúrda í Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×