Innlent

Bútaðir grísir ollu miklum umferðartöfum á höfuðborgarsvæðinu

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá vettvangi slyssins.
Frá vettvangi slyssins. Andrea Ósk
Sæbraut var lokuð til suðurs við Miklubraut vegna umferðaróhapps sem átti sér stað á áttunda tímanum í morgun. 

Sendiferðabíll Stjörnugríss valt á Sæbraut en verið var að flytja um 120 bútaða grísi. Afurðin endaði öll í götunni og við tók mikið hreinsistarf sem krafðist þess að lokað var fyrir umferð á Sæbraut til klukkan 10 í morgun. 

Við það myndaðist mikil umferðarteppa á Miklubraut og áleiðis upp í Mosfellsbæ þar sem ökumenn sátu fastir í töluverðan tíma.

Illa gekk að nálgast upplýsingar frá lögreglunni þar sem margir þeirra sátu fastir í umferð. Geir Hlöðver Ericsson, starfsmaður á söludeild Stjörnugríss, sagði í samtali við Vísi rétt fyrir klukkan tíu í morgun að hreinsun á Sæbraut væri lokið. Henda þarf kjötinu og er um mikið tjón að ræða fyrir fyrirtækið.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir allt hafa farið í hnút vegna þessa umferðaróhapps og sumir vegfarendur voru vel á aðra klukkustund á leið til vinnu af þessum sökum. 

Segir lögreglan að ástandið hafi verið einna verst hjá þeim sem komu úr austurborginni og Mosfellsbæ og óku Vesturlandsveg og Miklubraut í vestur.

Staðan
 á Sæbraut og Reykjanesbraut var með sama hætti, en lögreglan segir óhappið undirstrika að mörgu leyti hversu gatnakerfið er viðkvæmt og ekki þurfi mikið til svo umferðin svo gott sem stöðvast.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Frá aðgerðum lögreglu á vettvangi.Vísir/Hanna
Vísir/Hanna
Vísir/Hanna



Fleiri fréttir

Sjá meira


×