Innlent

Strætó samþykkir að leyfa gæludýr í vögnum

Kjartan Kjartansson skrifar
Eitt skilyrði þess að gæludýr fái um borð í Strætó er að farþegum sé gerð skýr grein fyrir því áður en þeir stíga um borð.
Eitt skilyrði þess að gæludýr fái um borð í Strætó er að farþegum sé gerð skýr grein fyrir því áður en þeir stíga um borð. Vísir/Anton
Stjórn Strætó samþykkti einróma að veita framkvæmdastjórn fyrirtækisins leyfi til að undirbúa að leyfa gæludýr í vögnum.  Notendur sem treysta sér ekki til að nýta þjónustuna eftir breytinguna geta farið fram á endurgreiðslu á eftirstöðvum langtímakorta.

Í tilkynningu frá Strætó kemur fram að verkefnið sé í undirbúningi hjá fyrirtækinu. Um tilraunaverkefni er að ræða í samræmi við skilyrði sem sett eru í undanþágu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins frá reglugerð um hollustuhætti.

Astma- og ofnæmisfélag Íslands hefur lagst gegn því að gæludýr verði leyfð í Strætó. Guðmundur H. Helgason, markaðs- og upplýsingafulltrúi Strætó, segir að ef einhverjir notendur Strætó sem eru með langtímakort treysti sér ekki til að nýta þjónustuna lengur sjái hann því ekkert til fyrirstöðu að fyrirtækið endurgreiði fyrir þann tíma sem eftir er af kortinu.

Fordæmi séu fyrir endurgreiðslum á kortum við forsendubrest á þjónustunni. Ef einhverjir treysti sér ekki til þess að ferðast með Strætó eftir að gæludýr verða leyfð þurfi þeir að hafa samband við Strætó og hvert mál verði afgreitt fyrir sig.

Á meðal skilyrða sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið setti fyrir undanþágunni að vagnar yrðu þrifnir sérstaklega vel í lok dags, upplýsingar um að gæludýr séu leyfð séu vel sýnileg farþegum áður en gengið er inn í vagninn og að dýrin skuli vera í lokuðum búrum eða töskum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×