Sport

Sjáðu norska skíðastjörnu brjálast eftir að áhorfendur reyndu að henda í hann snjóboltum í brautinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Henrik Kristoffersen var allt annað en sáttur.
Henrik Kristoffersen var allt annað en sáttur. Vísir/Getty
Það virðast vera komnar fram „skíðabullur“ í Austurríki en margir hneykluðust yfir framgöngu áhorfenda í heimsbikarmóti í svigi í gær nú þegar aðeins nokkrar vikur eru í að Ólympíuleikarnir hefjast í Suður-Kóreu.

Áhorfendur taka oft upp á ýmsu til að trufla íþróttamennina sem eru að keppa við þeirra menn en það er ekki algengt að sjá slíkt í alpagreinunum. Svo var samt raunin þegar Austurríksmaðurinn Marcel Hirscher og Norðmaðurinn Henrik Kristoffersen kepptu um fyrsta sætið á móti í Schladming í Austurríki.

Marcel Hirscher var á heimavelli og í baráttunni um sigurinn við Kristoffersen. Þegar Norðmaðurinn rendi sér niður brautina sáust snjóboltar koma fljúgandi í áttina að honum. Enginn þeirra hitti hann en Kristoffersen var hinsvegar öskuillur þegar hann var kom í mark.

Kristoffersen öskraði á mótshaldara og henti meira segja sjálfur smá snjó upp í stúku.

„Þetta var ókurteisi og alls ekki í lagi,“ sagði Henrik Kristoffersen en hann endaði svo í öðru sæti á eftir Marcel Hirscher. Norðmaðurinn sagði samt að snjóboltarnir hefðu ekki tekið af honum sigurinn. „Ég hefði ekki unnið þó að það hefðu ekki verið snjóboltar,“ sagði Kristoffersen.

„Ég finn til með Henrik. 99,9 prósent af 41 þúsund áhorfendum á mótinu voru frábærir áhorfendur. Það er synd að við skulum líka hafa áhorfendur sem láta svona,“ sagði Marcel Hirscher.

Marcel Hirscher kom í mark á 1:43.56 mín. en Henrik Kristoffersen kláraði á 1:43.95 mín.

Hér fyrir neðan má sjá atvikið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×