Innlent

Tómas fjölmörgum vinum harmdauði

Heimir Már Pétursson skrifar
Tómas Magnús Tómasson, eða Tommi Tomm eins og hann var yfirleitt kallaður, er fjölmörgum harmdauði enda var hann ákaflega virtur og vinsæll í tónlistarheiminum. Hann lést í gær eftir snarpa baráttu við krabbamein.

Tómas var bassaleikari Stuðmanna og Þursaflokksins en lék einnig með fjölmörgu öðru tónlistarfólki bæði inn á hljómplötur og á tónleikum. Hann var mjög fjölhæfur tónlistarmaður og réði við flestar tónlistarstefnur eins og langur og farsæll ferill hans sýnir. En hann var líka einn af eftirsóttustu upptökustjórum landsins og kom að upptökum mikils fjölda hljómplatna með mjög fjölbreyttum hópi tónlistarfólks.

Tómas fæddist hinn 23. maí árið 1954 og hefði því orðið sextíu og fjögurra ára í vor. Hann lætur eftir sig eiginmann.

Tómas var alúðlegur í samskiptum og átti auðvelt með að vinna með fólki en hann var líka mikill húmoristi og sagnabrunnur. Það er því ekki úr vegi að kveðja hann með ógleymanlegum söng hans með Þursaflokknum í laginu um sjómanninn Jón sem var bæði kræfur karl og hraustur, eins og heyra má í innslaginu með þessari frétt.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.