Skórnir hennar Katrínar hafa slegið í gegn víða um heim og fást meðal annars í Harvey Nichols og Browns í London. Nýverið samdi hún við Selfridges sem er önnur stærsta verslunin á Bretlandi á eftir Harrods. Hún er því vön örlítið meiri glamúr en þeim sem verður á Ægisíðunni á morgun en hún ætlar að bjóða upp á jólaglögg, piparkökur og góða skapið að sjálfsögðu.

Selfridges-samningurinn var handsalaður á síðustu tískuviku sem Katrín tók þátt í og fara skórnir upp í hillur verslunarinnar snemma á næsta ári. Hún er því komin hingað heim í jólafrí. „Ég er að sjálfsögðu með rjúpur. Ég er frá Þórshöfn og skýt yfirleitt mínar eigin en ég komst ekki þetta árið vegna anna. Svo pabbi er að koma með jólamatinn suður yfir heiðar.“