Innlent

„Bílstjórinn er miður sín eftir þetta“

Hjalti Freyr Ragnarsson skrifar
Strætóbílstjóri missti stjórn á skapi sínu eftir að barn kastaði klaka í framrúðu bílsins.
Strætóbílstjóri missti stjórn á skapi sínu eftir að barn kastaði klaka í framrúðu bílsins. Vísir/Vilhelm
Strætóbílstjóri sem handtekinn var í gær grunaður um að hafa ráðist á 11 ára gamalt barn var látinn laus eftir skýrslutöku. Hann mun þó ekki aka á meðan rannsókn málsins stendur yfir.

Aðspurður um tildrög málsins segir Guðmundur Heiðar Helguson, upplýsingafulltrúi Strætó að barnið hafi kastað klaka í framrúðu bílsins. Bílstjórinn hafi þá misst stjórn á skapi sínu og hlaupið út úr bílnum. „Þetta kom mér í opna skjöldu. Ég hafði aðeins heyrt frá Kynnisferðum að þetta væri rólegur og góður strákur,“ segir Guðmundur um strætisvagnsstjórann. „Bílstjórinn er miður sín eftir þetta.“ Einnig tekur hann fram að hann telji bílstjórann ekki hafa gert sér grein fyrir hversu ungt barnið var. Um það sem atvikaðist nákvæmlega eftir að bílstjórinn rauk út vildi Guðmundur ekki fullyrða. „Leyfum lögreglunni bara að klára sitt.“

Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi á höfuðborgarsvæðinu hefur svipaða sögu að segja um tildrög málsins. Snjóbolta hafi verið kastað í framrúðu bílsins en ekki hafi neinu verið kastað inn í bílinn. Aðspurður hvort bílstjórinn hafi sparkað í barnið segir Guðmundur hann aðeins grunaðan um það.

Atvikið átti sér stað í Gnoðarvogi en bílstjórinn var síðan handtekinn á Hlemmi. Strætisvagninn sem um ræðir var að fara leið 14.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×