Innlent

Nýr formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands kjörinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Auk Elísabetar (2.f.h.) voru þrjú kjörin fulltrúar á Réttindaskrifstofu SHÍ í kvöld. Sonja Sigríður Jónsdóttir, Pétur Geir Steinsson og Elísa Björg Grímsdóttir.
Auk Elísabetar (2.f.h.) voru þrjú kjörin fulltrúar á Réttindaskrifstofu SHÍ í kvöld. Sonja Sigríður Jónsdóttir, Pétur Geir Steinsson og Elísa Björg Grímsdóttir. SHÍ
Elísabet Brynjarsdóttir var kjörin formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) með öllum greiddum atkvæðum í kvöld. Kosningin fór fram á skiptafundi ráðsins. Áherslumál hennar verða húsnæðismál stúdenta, nýtt lánasjóðsfrumvarp og bætt geðheilbrigðisþjónusta við nemendu háskólans.

Í tilkynningu frá SHÍ kemur fram að Elísabet hafi útskrifast sem hjúkrunarfræðingur frá Háskóla Íslands í júní og hún hafi starfað sem teymisstjóri hjá heimahjúkrun Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins síðastliðið ár. Elísabet er formaður Hugrúnar - geðfræðslufélags háskólanema, sem stofnað var árið 2016 af nemendum í hjúkrunarfræði, læknisfræði og sálfræði við Háskóla Íslands og hefur gegnt hlutverki oddvita Röskvu, samtaka félagshyggjufólks við Háskóla Íslands, samhliða því. Röskva vann meirihluta í kosningum til Stúdentaráðs í febrúar.

Áður var Elísabet formaður sviðsráðs Heilbrigðisvísindasvið síðustu tvö starfsárin en hún lætur nú af störfum þar.

Á skiptafundi voru þrír menn kjörnir fulltrúar á Réttindaskrifstofu SHÍ. Sonja Sigríður Jónsdóttir var kjörin varaformaður, Pétur Geir Steinsson hagsmunafulltrúi og Elísa Björg Grímsdóttir lánasjóðsfulltrúi. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.