Flugmenn Landhelgisgæslunnar eltu og lögðu hald á dróna sem truflaði þá við björgunarstörf í síðustu viku.
Atvikið átti sér stað mánudaginn 27. nóvember þegar þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna konu sem féll í hlíðum Ingólfsfjalls.
Slasaðist konan á baki og var óskað eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar til að flytja hana úr brekkunni og á sjúkrahús í Reykjavík.
Á meðan á aðgerðum stóð varð vart við dróna á flugi í grennd við slysstað, í fráflugshæð þyrlunnar. Þegar björgunaraðgerðum lauk var dróninn eltur og haldlagður af flugmönnum þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Frá þessu er greint í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi þar sem reifuð eru helstu verkefni síðustu viku.
Landhelgisgæslan sendi frá sér tilkynningu vegna málsins í síðustu viku en þar kom fram að atvikið hefði verið tilkynnt lögreglu og flugmálayfirvöldum þar sem dróninn skapaði verulega hættu á slysi og truflaði þar með björgunaraðgerðina.
Flugmenn gæslunnar eltu og lögðu hald á dróna sem truflaði björgunarstarf
Birgir Olgeirsson skrifar
