Málverk Karólínu Lárusdóttur sem stolið var fyrir skemmstu eru komin í leitirnar. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gerði húsleit í kjallaraíbúð í Reykjavík í kvöld og fann þar fjölda málverka. RÚV greinir frá.
Verkunum sjö var stolið þegar brotist var inn í geymslu listakonunnar við Vatnsstíg. Ekki liggur fyrir hvenær innbrotið var framið en talið er að það hafi átt sér stað einhvern tímann á tímabilinu 23. til 28. desember. Innbrotsþjófarnir höfðu þó ekki öll málverk Karólinu sem voru í geymslunni en fjögur þeirra voru skilin eftir.
Í frétt RÚV segir að sá sem stal málverkunum hafi sjálfur gefið sig fram við lögreglu.
Fjölskylda Karólínu hafði heitið því að bjóða 500 þúsund krónur í verðlaun fyrir upplýsingar sem gætu hjálpað henni að endurheimta verkin en Stephen Lárus Stephen, sonur Karólínu, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld að augljóst væri að innbrotið hafi verið mjög skipulagt.
