Bráðabirgðakrufning réttarmeinafræðings lögreglunnar, sem lauk í gærkvöld, færði lögreglu nær því að vita hver dánarorsök Birnu Brjánsdóttur er. Lögregla vildi ekki veita upplýsingar um bráðabirgðaniðurstöður rannsóknarinnar en þegar Fréttablaðið fór í prentun var ekki búið að greina fjölskyldu Birnu frá þeim.
Niðurstöður lífssýna sem fundust í rauðu bifreiðinni sem hinir grunuðu höfðu til umráða, sem og á fatnaði þeirra og gögnum sem lagt var hald á í togaranum Polar Nanoq, hafa ekki borist að öðru leyti en því að lögregla fékk staðfest að blóð úr Birnu hefði fundist í bifreiðinni. Lögregla lagði hald á gögn í togaranum sem hún telur mjög mikilvæg rannsókninni.
Löndun úr togaranum Polar Nanoq lauk í gær en gert er ráð fyrir að skipið haldi aftur af stað í dag. Skipverjar bíða leyfis lögreglu til að leysa landfestar á ný.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu

