Umfjöllun: Ísland - Kosóvó 2-0 | Ísland á HM

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu í kvöld.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu í kvöld. Vísir/Anton
Ísland á HM. Það varð að veruleika eftir 2-0 sigur íslenska karlalandsliðsins á Kósovó á Laugardalsvellinum í kvöld. Gylfi Þór Sigurðsson og Jóhann Berg Guðmundsson skoruðu mörk Íslendinga sem voru mun sterkari aðilinn í leiknum í kvöld.

Ísland verður því eitt 32 liða í pottinum þegar dregið verður í riðla á HM 1. desember næstkomandi. Stórkostlegt afrek og enn meira afrek en að komast á EM, þótt það hafi verið stórt.

Eftir tapið fyrir Finnum í Tampere leit íslenska liðið inn á við og fór að vinna aftur eftir grunngildunum sem hafa komið liðinu svo langt á undanförnum árum.

Ísland vann síðustu þrjá leiki sína í undankeppninni með markatölunni 7-0 og sýndi styrk sinn svo um munaði. Mögnuð frammistaða hjá mögnuðu liði sem hættir ekki að brjóta blað í íslenskri fótboltasögu. Afrek þessara drengja mun bergmála í eilífðinni.

Jón Daði í baráttunni í kvöld.vísir/ernir
Erfitt í fyrri hálfleik

Íslenska liðið hefur oftast spilað betur en í fyrri hálfleiknum. Ólseigir Kósovóar spiluðu þéttan varnarleik og gerðu strákunum okkar erfitt fyrir.

Íslendingar voru meira með boltann en gerðu lítið með hann. Sendingar voru margar hverjar slakar og fyrir utan einstaka fyrirgjafir ógnaði Ísland lítið.

Kósovó gerði það ekki heldur, ef frá er talið gott skot sem Milots Rashica sem fór rétt framhjá íslenska markinu á 39. mínútu.

Mínútu síðar komst Ísland yfir með marki Gylfa Þórs. Boltinn hrökk þá til Everton-mannsins sem lék inn á teiginn og gerði engin mistök þegar hann setti boltann framhjá Samir Ujkani í marki Kósovó. Átjánda landsliðsmark Gylfa og hans fjórða í þessari undankeppni. Staðan í hálfleik 1-0, Íslandi í vil.

Íslenska liðið var áfram sterkari aðilinn í seinni hálfleik og það kósovóska sýndi lítinn áhuga á að sækja.

Ísland átti nokkrar álitlegar sóknir en skapaði fá afgerandi færi.

Eitt núll er alltaf hættuleg staða og hún varð enn hættulegri þegar Króatía komst yfir í Úkraínu um miðjan seinni hálfleik.

Jóhann Berg átti frábæran leik í kvöld.vísir/eyþór
Jóhann Berg róaði taugarnar

En á 68. mínútu sáu Gylfi og Jóhann Berg til þess að Íslendingar þyrftu ekki að hafa frekari áhyggjur af úrslitunum. Gylfi lék þá á varnarmenn Kósovó, upp að endamörkum vinstra megin og setti boltann á fjær þar sem Jóhann Berg mætti og kom boltanum yfir línuna.

Sjöunda landsliðsmark Jóhanns Berg og keimlíkt markinu sem hann skoraði gegn Tyrkjum á föstudaginn. Jóhann Berg hefur spilað stórvel í undankeppni HM en leikurinn í kvöld var hans besti.

Eftir annað markið var aldrei spurning hvorum megin sigurinn myndi enda. Íslenska liðið spilaði af skynsemi og hefði getað bætt fleiri mörkum við. Jóhann Berg átti t.a.m. tvö hættuleg skot sem Ujkani varði.

Það brutust svo út mikil fagnaðarlæti þegar austurríski dómarinn Harald Lechner flautaði til leiksloka. Flugeldum var skotið á loft og áhorfendur á Laugardalsvelli fögnuðu hetjunum sínum ákaft. Hetjunum sem verða í Rússlandi næsta sumar.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.