Innlent

Píratar vilja fá formann

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir er þingflokksformaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir er þingflokksformaður Pírata. Vísir/Anton
Þingmenn Pírata ræða þessa dagana hvort flokkurinn eigi að breyta skipulagi sínu með því að taka upp embætti formanns.

„Við erum að ræða þetta í þingflokknum. Þetta hefur með praktíska þætti upp á þingið að gera, snýst um aukna valddreifingu á þinginu,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata.

Til útskýringar segir hún að flestir stjórnmálaflokkar hafi bæði þingflokksformann og formann. „Alla jafna eru báðir starfandi á þinginu. Við erum ekki með formann þannig að þingflokksformaður sinnir flestum þessum skyldum. Það getur haft kosti í för með sér að skipta þessum verkefnum niður.“

Sunna segir að standi til að ræða hugmyndina við grasrót flokksins. „Þetta er allt á hugmyndastigi og það er ekki búið að taka neina ákvörðun eða móta neina tillögu. Við vorum bara að spjalla.“

Sunna segir núverandi skipulag, að hafa ekki formann í hreyfingunni, hafi verið tekið í arf frá Borgarahreyfingunni sem fékk kjörna þingmenn árið 2009. „Við viljum vera með flatan strúktúr. Það er enginn yfir neinum í Pírötum og við erum ekki með valdapíramída. Það hefur verið okkar andúð við vald og valdboð sem hefur haldið þessu í sessi.“ 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.