Innlent

Ólöglegar áfengisauglýsingar „úti um allt“

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Þrátt fyrir að yfir fimmtán hundruð tilkynningar um ólöglegar áfengisauglýsingar hafi borist stjórnvöldum þá hefur ekki verið gripið í taumana. Aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, segir áfengisauglýsingum fjölga á samfélagsmiðlunum þar sem þeim er sérstaklega beint til barna og unglinga.

Á ráðstefnunni Íslenskar æskulýðsrannsóknir var fjallað sérstaklega um áfengisauglýsingar sem beint er að börnum og unglingum en samkvæmt íslenskum lögum eru hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum bannaðar. Árni Guðmundsson , aðjúnkt á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, segir áfengisauglýsingum hafa fjölgað mjög á síðustu árum. Ekki síst á samfélagsmiðlunum þar sem þeim er beint sérstaklega að ungmennum en einnig á öðrum stöðum.

„Þær eru úti um allt. Ég hef verið krítiskur gagnvart RÚV, þar hafa verið auglýsingar í kringum fjölskylduþætti, hjá íþróttafélögunum, í sporti - maður sér þetta á vettvangi þar sem áhorfendur eru börn og ungmenni,“ segir Árni.

Árni er einnig formaður Foreldrafélags gegn áfengisauglýsingum en samtökunum hefur fimmtán til sextán hundruð tilkynningar um áfengisauglýsingar á síðustu árum.

„Við höfum fengið fjöldann allan í gegnum vefinn okkar og sent til yfirvalda. Það er svo skrýtið að réttindi æskunnar komist ekki á dagskrá, þannig að það eru ekki gefnar út neinar kærur og þá veltir maður fyrir sér hvort réttindi barna og ungmenna séu minna virði en annarra samfélagsþegna. Þeir sem ættu að gera eitthvað í málunum - það er bara á tali hjá þeim, eins og maður segir,“ segir Árni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.