Innlent

Neita að hafa vitað af sögulegu magni amfetamínbasa í bílnum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mennirnir komu til landsins með Norrænu í byrjun október.
Mennirnir komu til landsins með Norrænu í byrjun október. Vísir/ÓKÁ
Mennirnir tveir sem grunaðir eru um að flytja rúmlega 11 lítra af amfetamínbasa hingað til lands í byrjun október neita báðir að hafa vitað að þeir flyttu efnin. Um er að ræða sögulega mikið magn en samkvæmt hefðbundnum útreikningum væri að öllum líkindum hægt að nota 11 lítra af basa til að framleiða um 150 kíló af amfetamíndufti.

Basanum hafði verið komið fyrir í eldsneytistanki bifreiðar sem þeir óku frá Pólland í gegnum Þýskaland og Danmörku. Þaðan tóku þeir Norrænu til Seyðisfjarðar.

Hæstiréttur úrskurðaði annan manninn í áframhaldandi gæsluvarðhald til 24. nóvember en mennirnir hafa sætt gæsluvarðhaldi og einangrun á grundvelli rannsóknarhagsmuna undanfarnar vikur.

Í úrskurðinum má meðal annars lesa að mennirnir hafa verið yfirheyrðir í þrígang og að framburður þeirra hafi tekið töluverðum breytingum á milli yfirheyrslna.

Sjá einnig: Fundu sögulegt magn af amfetamínbasa í Norrænu

Upphaflega hafi þeir báðir sagst hafa komið hingað frá Póllandi í leit að vinnu. Síðar viðurkenndi annar þeirra að að tilgangur ferðarinnar hingað til lands hafi verið að sækja hingað peninga og fara með þá aftur til baka til Póllands fyrir mann sem hann þekki í Póllandi. Hafi sá aðili átt bifreiðina sem mennirnir komu á. Hinn maðurinn hafi hins vegar haldið sig áfram við söguna af atvinnuleitinni á Íslandi.

Hafi þeim verið uppálagt að keyra frá Seyðisfirði á höfuðborgarsvæðið þar sem þeir hafi átt að hitta aðila fyrir utan tiltekið hótel sem myndi afhenda þeim peningana sem þeir hafi átt að sækja. Fyrir þetta hafi hann þeir átt að fá greiddar samtals 15 þúsund zloty, rúmlega 435 þúsund íslenskar krónur. Báðir neita þeir að hafa vitað af amfetamínbasanum í bílnum.

Að sögn lögreglu miðar rannsókn málsins vel áfram en að ljóst sé að fleiri aðilar tengist málinu. „Rannsókn lögreglu hafi miðað að því að hafa upp á þeim aðilum, en annar þeirra sé búsettur í Póllandi og hafi staðið fyrir því að kærðu komu hingað til lands á bifreiðinni sem fíkniefnin fundust í og hinn aðilann hafi kærðu átt að hitta hér á landi fyrir utan tiltekið hótel. Í samstarfi við pólsk yfirvöld sé enn unnið að því að afla upplýsinga um mögulega samverkamenn, en það hafi ekki borið árangur hingað til,“ segir í úrskurði Hæstaréttar.

Ljóst sé að sama skapi að efnið sem þeir flutti hafi verið ætlað til sölu og dreifingar hér á landi og að hið minnsta annar mannanna sé undir sterkum grun um að hafa framið brot sem gæti varðað allt að 12 ára fangelsi.

Hér að neðan má sjá umfjöllun kvöldfrétta Stöðvar 2 um málið um miðjan október.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×