Innlent

Segist hafa bitið tungu eiginmannsins óvart og ekki skilið eigin styrk

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögregla var kölluð á staðinn. Myndin er úr safni.
Lögregla var kölluð á staðinn. Myndin er úr safni. Vísir/Daníel
Hæstiréttur hefur staðfest farbannsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur gagnvart konu sem grunuð er um að hafa bitið tunguna af eiginmanni sínum. Konan segir að hún hafi óvart bitið í tungu mannsins.

Líkamsárásin átti sér stað aðfaranótt miðvikudags í heimahúsi í Reykjavík. Lögregla var kölluð á vettvang og voru mikil læti á staðnum þegar hana bar að garði.

Í greinargerð lögreglu segir að konan hafi reiðst þegar eiginmaður hennar hafi verið að gera sér dælt við aðra konu á staðnum. Hafi þau í kjölfarið farið að rífast. Við yfirheyrslu sagði konan að eiginmaðurinn hefði verið mikið í andlitinu á sér.

Kvaðst hún hafa bitið hann óvart en „kvaðst svo ekki hafa skilið þann styrk sem hún hafi í tönnunum þegar hún hafi birtið í tunguna á honum,“ að því er segir í skýrslunni.

Sauma þurfti þrjátíu spor til þess að sauma tungu mannsins saman á ný en ekki er víst hvort að ú aðgerð hafi heppnast. Það mun koma í ljós síðar.

Konan er frá Ástralíu og er í farbanni til 29. nóvember næstkomandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×