Innlent

Margrét María skipuð forstjóri Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar

Atli Ísleifsson skrifar
Margrét María Sigurðardóttir gegndi embætti umboðsmanns barna á árunum 2007 til 2017.
Margrét María Sigurðardóttir gegndi embætti umboðsmanns barna á árunum 2007 til 2017. Vísir/Pjetur
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur skipað Margréti Maríu Sigurðardóttur, fyrrverandi umboðsmann barna, nýjan forstjóra Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Skipunin er til fimm ára.

Í frétt á vef ráðuneytisins segir að ákvörðun um skipun hennar sé í samræmi við mat ráðgefandi nefndar sem mat hæfni umsækjenda. Embættið var auglýst í júní síðastliðinn og voru umsækjendur tíu.

„Ráðgefandi nefnd sem mat hæfni umsækjenda skilaði niðurstöðum sínum til ráðherra 4. september og mat Margréti Maríu vel hæfa til starfsins. Ákvörðun ráðherra um skipun hennar var tekin að undangengnum viðtölum við þá umsækendur sem nefndin mat hæfasta.

Margrét María lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1990, hlaut héraðsdómslögmannsréttindi árið 1996 og lauk námi til kennsluréttinda frá Háskólanum á Akureyri árið 2010. Hún hefur einnig stundað ýmis konar styttra nám og sótt námskeið sem varða m.a. stjórnun, sáttamiðlun og réttindi barna.

Margrét María gegndi embætti umboðsmanns barna árin 2007 – 2017 og var framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu árin 2003 – 2007. Á árunum 1997 – 2003 starfaði hún við lögmennsku en sat sumarlangt sem sýslumaður og lögreglustjóri á ísafirði árið 2000. Hún hefur einnig starfað sem atvinnuráðgjafi og sem sýslumannsfulltrúi hjá fjórum sýslumannsembættum,“ segir í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×