Lífið

Borðaði lítið sem ekkert, æfði rosalega mikið og fór síðan í átlotur sem skiluðu sér í klósettið

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Erna Kristín Stefánsdóttir segir að staðlar samfélagsins þegar kemur að útliti og fegurð séu langt frá því að vera í lagi.
Erna Kristín Stefánsdóttir segir að staðlar samfélagsins þegar kemur að útliti og fegurð séu langt frá því að vera í lagi. Erna Kristín
Erna Kristín Stefánsdóttir hönnuður, áhrifavaldur og bloggari sigraðist á átröskun eftir að hún varð ófrísk af syni sínum. Hún segir að sín líkamsímynd hafi verið orðin slæm við átta ára aldur. Líf hennar breyttist algjörlega þegar hún komst að því að hún væri ófrísk af sínu fyrsta barni og móðurhlutverkið hefur breytt algjörlega hennar sambandi við hreyfingu og mat. Það var mjög snemma sem sjálfstraustið var lágt og líkamsmyndin slæm.

„Ég taldi mig vera feitan krakka þrátt fyrir að hafa aldrei verið feit. Ég man eftir því að hafa grátið inni á klósetti á fimleikamóti því ég komst að því að ég mátti ekki vera í stuttbuxum yfir fimleikabolinn, veröldin hrundi gjörsamlega. Ég trúði ekki að ég þyrfti að fara fram á fimleikabolnum einum með svona feitan maga og feit læri. Þarna var ég aðeins átta ára gömul og ég ítreka að ég hef aldrei verið í yfirþyngd. Líkamsímyndin var strax farin að ruglast á þessum tíma.“

Erna Kristín hefur alltaf verið í íþróttum og hreyfði sig mikið sem barn. Hún hefur æft fótbolta meirihlutann af ævinni, samhliða sundi, fimleikum og handbolta. Hún lýsir mataræðinu á yngri árum sem venjulegu.

„Engar sérstakar pælingar, bara þetta góða og holla sem mamma gaf mér að borða.“

Æfði mikið og borðaði lítið sem ekkert

Í kringum 18 til 20 ára aldur áttaði Erna Kristín sig á því að hún væri með búlimíu. Einkenni átröskunar höfðu þó komið fram hjá henni miklu fyrr án þess að hún áttaði sig á því.

„Ég hugsa að það hafi verið í kring um átta ára aldurinn sem ég var sem ég byrjaði að vera raunverulega meðvituð um líkama minn í röngu ljósi, en það var þó aðallega í hausnum á mér á þeim tíma.“ Veikindi Ernu Kristínar komu og fóru, stundum náði hún á góðan stað og hélt sínu striki en svo fór hún því miður aftur inn í sama vítahringinn.

„Veikindi mín lýstu sér þannig að ég borðaði lítið sem ekkert, æfði rosalega mikið og fór síðan í átlotur sem skiluðu sér í klósettið. Ég átti auðveldara með að borða ekki en að æla, svo ég kaus frekar þá leið eins lengi og ég gat, borðaði þá aðallega bara grænmeti og ávexti og mjög takmarkað af því yfir daginn. En ég gat því ekki vaknað á morgnanna og átti það til að sofna tímunum saman yfir daginn án þess að átta mig á því að hafa sofnað.“

Erna Kristín skammaðist sín fyrir búlimíuna og ræddi veikindin ekki við marga.

Erna Kristín var snemma komin með einkenni átröskunar en áttaði sig á því að hún væri með búlimíu á aldrinum 18 til 20.Erna Kristín
Vissi ekki að hún væri ófrísk

„Þetta hafði sem allra mest áhrif á andlegu hliðina, ég var stælt eftir fótboltann og var því líkaminn í ágætu standi, þá fyrir utan síþreytu og orkuleysi. Búlemían kom og fór, eins óboðin og hún var, en ég fann að hún var ekki að fara neitt á þeim tímapunkti sem hún var orðin sem verst, rétt áður en ég vissi af þunguninni.“

Erna Kristín komst að því að hún væri ófrísk þegar hún var komin þrjá mánuði á leið. Á þeim tímapunkti hafði hún æft tvisvar sinnum á dag og borðað litla sem enga næringu enda vissi hún ekki að hún væri ófrísk. Erna Kristín segist vera fegin að búlimían hrjáði hana á þessum tímapunkti í lífinu en ekki öðrum. Þegar hún var orðin hvað verst og búin að missa tökin algjörlega varð hún ófrísk og það hafi breytti öllu.

„Ég vildi ekki að litla barnið mitt myndi ekki fá næringu, það small eitthvað í hausnum á mér. Ég var komin á þann stað að ég var tilbúin að gera allt til að passa þetta litla barn og það gerði ég.“

Erna Kristín eignaðist son árið 2014.Erna Kristín
Hljóp fram með leðurbuxurnar á hælunum

Meðganga Ernu Kristínar var virkilega góð og henni leið eins og hún væri mjög frjáls. Eftir fæðingu leið henni ágætlega með líkama sinn.

„Ég áttaði mig ekki á því hversu mikið ég hefði bætt á mig. Ég gleymi því aldrei þegar ég ætla fara í útvíðu leðurstuttbuxurnar mínar á jólatónleika mánuð eftir barnsburð. Ég kom þeim ekki einu sinni upp lærin á mér. Þá fyrst áttaði ég mér á þyngdaraukningunni en viðbrögðin mín voru svo jákvæð. Ég hljóp fram í stofu í leðurstuttbuxunum, með þær á hælunum í hláturskasti.“

Erna Kristín segir að það sem hafði mest áhrif á hana og breytta líkamann var það hvernig fólkið í kringum hana talaði við hana.

„Oft á köflum fór ég þá að efast og baráttan að vinna í því að elska sjálfan sig varð þyngri. Ég fékk aldrei að heyra setningar eins og „bíddu vó varst þú ekki að eignast barn?“ eða „vá hvað þú varst fljót að grennast aftur eftir meðgönguna“ og ég var svo sannarlega ekki sú sem passaði í fötin sín eftir þessa veislu. Ég var aftur á móti sú sem fékk að heyra setningar eins og „hvaða, hvaða þetta kemur allt,“ eða „jú þú lítur mjög vel út, hitt kemur svo bara.“ Hitt hvað? Að vera mjó aftur? Er það atriðið sem allir eru að bíða eftir? Verð ég þá samþykkt í samfélaginu?“

Hamingjan felst ekki í því að vera mjór

Hún segir að móðurhlutverkið hafi haft mjög góð áhrif á sig en sonur hennar fæddist árið 2014.

„Ég sé mun skýrar hvað raunverulega skiptir máli í lífinu og áherslupunktarnir mínir eru allt aðrir en voru. Ég hreyfi mig núna til að styrkja mig og fá aukna orku til þess að sinna börnunum og heimilinu en ekki til þess að grennast. Ég stíla á andlega líðan og heilbrigðan líkama, formið fylgir með.“

Erna Kristín er líka stjúpmóðir ungrar stúlku sem hún segir að sé bæði yndislegt og mikil forréttindi.

„Ég hef alltaf passað að tala fallega um líkama minn fyrir framan hana til þess að sýna henni hversu stolt ég er af honum í hvaða formi sem hann kemur og hafði hún aldrei fundið fyrir neinu hvað varðar búlemíuna og raskaða líkamsímynd sem ég þjáðist af, ekki einu sinni á mínum versta tíma. Mér finnst mikilvægt að passa hvernig við tölum fyrir framan börnin okkar, lítil eyru meðtaka svona rosalega hratt og fyrsta sem þau gera er að byrja á því að dæma sjálfan sig. Mér finnst mikilvægt að hún viti að hamingjan felst ekki í því að vera mjór eða hvað það er sem samfélagið biður um á þeim tímapunkti, en að allir líkamar eru fallegir hvernig sem þeir koma. Við erum sammála um að allar konur eru alvöru konur, þótt að auglýsingaskilti sýna oftast nær ákveðnar týpur af líkömum, á meðan önnur skilti sýna „real woman have curves“ Við viljum ekki setja konur í kassa, allar konur eru alvöru í hvaða formi sem þær koma, óháð tískubylgjum og líkamsstuðlum samfélagsins.“

Erna Kristín
Að hennar mati eru staðlar samfélagsins þegar kemur að útliti og fegurð langt frá því að vera í lagi.

„Annað hvort ertu of feit eða of mjó. Það þarf að stoppa þetta strax og hætta að upphefja feitar konur fram yfir mjóar og mjóar fram yfir feitar. Við erum allar fallegar og líkamar okkar líka. Það á engin tískubylgja eða skilti að geta sagt okkur hvaða konur eru alvöru eða hvaða konur eru með fallegustu líkamana. Líkami er líffæri sem gefur okkur þá stóru gjöf að geta sinnt daglegu lífi, lifað og verið til. Án líkama værum við ekkert og þess vegna þurfum við að fara bera meiri virðingu fyrir líkamanum okkar og okkur sjálfum.“

Í fullu starfi sem áhrifavaldur

Samfélagsmiðlar hafa gjörsamlega breytt lífi Ernu Kristínar en hún er bæði á Snapchat og Instagram undir nafninu Ernuland ásamt því að blogga á síðunni Króm.

„Ég opnaði Snapchat Ernuland til þess að auglýsa listaverin mín árið 2015. Snappið tók allt aðra beygju og stækkaði gífurlega hratt. Ég vinn núna að allskonar verkefnum og hef unnið alfarið sem áhrifavaldur seinustu ár og elska að geta unnið við það sem ég elska að gera. Ný tækifæri opnast mjög reglulega og myndi ég segja þennan heim vera algjört ævintýri, þú veist aldrei hvaða tækifærisdyr munu opnast næst og fyrir mig er það ekkert nema spennandi. Vegna samfélagsmiðla hef ég einnig haft tök á að vera með strákinn minn heima hjá mér á sumrin sem eru algjör forréttindi.“

Erna Kristín hefur nýtt samfélagsmiðlana fyrir margt fleira en að vera áhrifavaldur og hefur meðal annars safnað fyrir góðgerðarmál.

„Til dæmis hélt ég söfnun fyrir vannærð börn í Nígeríu og safnaði með hjálp fylgjenda minna 1,7 milljón króna sem bjargaði rúmlega 200 börnum frá því að svelta. Ég er dugleg að opna umræður um viðkvæm mál til þess að hjálpa öðrum og er þetta eitt þeirra. Ég tel að vera mjög mikilvægt að nýta þessa miðla, Snapchat og bloggmiðilinn sem ég skrifa hjá til að hjálpa öðrum. Ég næ yfir gífurlega stóran hóp með skrifum mínum hja krom.is og með mínum miðlum og finnst mér því fráleitt að nota þá aðeins undir auglýsingar.“ Hún er með fastan fylgjendahóp en svo er alltaf að bætast í hann.

„Ég fæ virkilega mikil viðbrögð frá mínum fylgjendum sem gerir þetta batterí allt raunverulegra, það sem er allra best er þegar ég get gert eitthvað gagn til að hjálpa öðrum. Þá fyrst finnst mér þetta allt hafa einhvern almennilegan tilgang.“

Erna Kristín segist elska líkama sinn eins og hann er í dagErna Kristín
Er að ljúka prestnámi

Erna Kristín segist vera á mjög góðum stað í dag, stað sem hún hélt að hún myndi aldrei komast á. „Ég er þó alltaf meðvituð og finn að ég á smá í land, en þetta er bara spurning um að rækta sjálfan þig og elsku þína á líkama þinn og sál.“

Samband Ernu Kristínar við mat og hreyfingu er líka miklu betra, hún er byrjuð að þora að hreyfa sig aftur og er í einkaþjálfun hjá Rakeli í Reebok Fitness. Erna Kristín segir að einkaþjálfarinn passi upp á að hausinn sé í lagi og að hún fari ekki aftur í einhverjar öfgar.

„Ég vil bara minna alla á að enginn hefur þau völd að ákveða hvaða líkamar teljast vera fallegir í samfélaginu, hvort sem þessir líkamar eru notaðir í auglýsingar í takt við einhverjar tískubylgjur eða annað, þá erum við öll falleg og líkaminn okkar líka. Það er mikilvægt að taka sér tíma og læra að elska líkama sinn áður en maður ætlar sér að fara grennast. Því ég get lofað ykkur því að það breytir engu máli hversu mörg kíló þú missir, ef þú elskar ekki líkamann þinn fyrst, þá áttu alltaf eftir að vilja meira og meira.“

Erna Kristín er núna að klára prestanám og er í fullum undirbúningi fyrir Mag.Theol ritgerðina sína. Margt spennandi er framundan hjá henni og hún horfir jákvæð á framtíðina.

„Prestanámið er fimm ára nám, strembið og þungt en fylgjendur mínir hafa fengið að fara í gegnum námið með mér í hverri einustu prófabugun. Það er ekkert smá skemmtilegt að heyra í þeim sem hafa fylgst með mér sem lengst, þau raunverulega eru byrjuð að þekkja hvenær það er mikið að gera hjá mér í skólanum og hvenær ég er í prófalestri. Á döfinni er æðislegt verkefni sem ég er að vinna að, sem ég frumsýni núna fyrir jól og ég er að kafna úr spennu. Þetta er búið að vera draumur lengi og loksins verður hann að veruleika. Ég er rosalega spennt að tilkynna fylgjendum mínum fregnirnar þegar ég loksins má kjafta frá.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×