Innlent

Ríkisaðstoð í uppnámi vegna stjórnarslitanna

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Fráveitumál við Mývatn hafa lengi verið í ólestri.
Fráveitumál við Mývatn hafa lengi verið í ólestri. VÍSIR/VILHELM
Viðræður Skútustaðahrepps við ríkisstjórnina um fjárhagsaðstoð vegna alvarlegs vanda í fráveitumálum er í uppnámi vegna stjórnarslitanna. Hreppurinn og fyrirtæki í ferðaþjónustu við Mývatn biðja nú um gálgafrest áður en til afturköllunar starfsleyfa kemur, sem vofað hefur yfir ferðaþjónustufyrirtækjum á svæðinu, Frestur sem heilbrigðisnefnd svæðisins veitti hreppnum og fyrirtækjum til að skila fjármagnaðri úrbótaáætlun og Fréttablaðið hefur greint frá, rann út fyrir viku.

Ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar um hvort frestur verður veittur verður tekin snemma í október, segir Alfred Schiöth, framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits svæðisins.

Áætlaður heildarkostnaður við úrbætur er um eða yfir hálfur milljarður króna og leitað hefur verið til ríkisins eftir fjárhagsaðstoð. Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra hefur lagt þá línu að fyrirtækin á svæðinu þurfi sjálf að leggja eitthvað af mörkum, en sýna þurfi skilning á því að vandinn sé stór og sveitarfélagið lítið. Enn liggur þó ekkert fyrir um aðkomu ríkisins.

„Viðræður voru komnar í fínan farveg. Við áttum bókaðan fund síðastliðinn mánudag með bæði fjármála- og umhverfisráðherra. Hann var blásinn af vegna stjórnmálaástandsins,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps. „Nú fer allt í bið og við þurfum væntanlega að byrja frá grunni þegar ný ríkisstjórn hefur verið mynduð eftir kosningar.“ 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.