Björn Ingi greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni en á laugardag var greint frá því að hann væri skráður rétthafi nýs léns, samvinnuflokkurinn.is, en þvertók að vera á leið í framboð.
Vísir greindi svo frá því að á mánudag að yngri bróðir Sigmundar Davíðs, Sigurbjörn Magnús Gunnlaugsson, hefði tryggt sér lénið midflokkurinn.is.
Báðir voru þeir Björn Ingi og Sigmundur Davíð áhrifamiklir menn innan Framsóknarflokksins en hafa sagt skilið við hann eftir mikil innanflokksátök, sem náðu eflaust hámarki í október í fyrra þegar Sigurður Ingi Jóhannsson felldi Sigmund Davíð í formannskosningu flokksins.
„Nú hefur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagt sig úr Framsóknarflokknum og boðað nýja stjórnmálahreyfingu. Í því felast vatnaskil að mínu mati. Ég fagna því mjög að við Íslendingar fáum aftur tækifæri til að kynnast framtíðarsýn hans sem stjórnmálaforingja, enda geta flestir verið sammála um þann mikla árangur sem náðist fyrir land og þjóð undir hans forystu á sínum tíma,“ skrifar Björn Ingi.
Hann segir það heillavænlegra að sameina krafta framfarasinnaðs fólks í stað þess að dreifa þeim og því muni Samvinnufólk glaðbeitt ganga til liðs við miðjuhreyfingu Sigmundar Davíðs.