Innlent

Vestnorræna ráðið setur af stað rannsókn á plastmengun í Norður-Atlantshafi

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Um það bil 300 milljón tonn af plasti eru framleidd á hverju ári.
Um það bil 300 milljón tonn af plasti eru framleidd á hverju ári. Vísir/AFP
Ársfundur Vestnorræna ráðsins, samstarfsráðs þjóðþinga Íslands, Færeyja og Grænlands, samþykkti í dag að beina því til stjórnvalda landanna þriggja að vinna sameiginlega að rannsókn á umfangi örplasts í lífverum hafsins og plastmengunar almennt í Norður-Atlantshafi. Ársfundurinn var haldinn á Alþingi í gær og í dag.

Niðurstöður rannsóknarinnar verða lagðar fyrir Vestnorræna ráðið eftir tvö ár.

Þá er einnig mælst til þess að stjórnvöld landanna vinni saman að því að draga úr notkun plasts og örplasts og vinni gegn notkun örplasts í framleiðsluvörum, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi.

Jafnframt var samþykkt á fundinum að beina því til stjónvalda landanna þriggja að vinna að greiningu á möguleikum til aukins samstarfs Vestur-Norðurlanda um menntun á sviði sjávarútvegs.

Þá var einnig samþykkt að setja á fót vinnuhóp sem fengi það hlutverk að vinna að útgáfu sameiginlegrar vestnorrænnar vísu- og söngbókar.

Þjóðþing landanna þriggja skipa sex fulltrúa hvert í Vestnorræna ráðið. Bryndís Haraldsdóttir er formaður Íslandsdeildar. Auk Bryndísar eru Lilja Rafney Magnúsdóttir, Eygló Harðardóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Einar Brynjólfsson og Pawel Bartoszek í ráðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×