Lífið

Ljóshærð Birgitta hættir eftir kjörtímabilið

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Birgitta flutti nýlega í Laugarneshverfið þar sem hún ræktar ber og kartöflur í garðinum.
Birgitta flutti nýlega í Laugarneshverfið þar sem hún ræktar ber og kartöflur í garðinum. Vísir/Laufey

Ljósir lokkar Birgittu Jónsdóttur stálu senunni í ræðustól þingmanna í eldhúsdagsumræðum Alþingis í vor, enda þekkt fyrir svartan makka. Hún segir komast upp með að vera meira utan við sig sem ljóska.

„Mig langaði að lita hár mitt grátt í tilefni þess að ég er varð hálfrar aldar gömul. Mér finnst það afar kúl, en gengur mjög hægt að grána,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingskáld Pírata og aðgerðasinni á Alþingi, um tilurð þess að hún er nú orðin ljóska. Birgitta hefur frá unglingsaldri séð sjálf um að lita hár sitt og fer helst ekki á hárgreiðslustofur nema til að fá sér permanent.

„Ég er pönkari og í þeim kúltúr gerir maður hlutina sjálfur. Þá er ég listamaður í grunninn og fæ fá tækifæri til útrásar fyrir hið listræna á Alþingi. Ég geri við fötin mín sjálf, mála húsið mitt sjálf og var fátæk mjög lengi, en líka að eigin vali, til að geta sinnt barnauppeldi og lífsskoðunum mínum betur.“

Það tók Birgittu margar tilraunir að fá ljósan kollinn. „Til að gera dökkt hár grátt þarf fyrst að aflita það. Því horfði ég á margar misskemmtilegar leiðbeiningar á Youtube til að fara sem réttast að. Á endanum fann ég efnið Olaplex sem verndar hárið í aflitunarferlinu en lenti á leiðinni í alls kyns furðulegum útfærslum og mætti meðal annars á frumsýningu heimildarmyndar um Edward Snowden í París með beibíblátt hár. En einn daginn var ég svo orðin ljóshærð og ákvað að staldra aðeins við áður en ég lita hárið alveg grátt.“

Birgitta fann fljótt að það er meira fjör að vera ljóska.

„Ég fíla vel að vera blondína og hef veitt því athygli að maður má vera meira utan við sig þannig. Það eru engar ýkjur heldur veruleiki að hárlitur getur gjörbreytt því hvernig fólk kemur fram við mann. Því hefði ég ekki trúað nema að upplifa það. Svo er þetta mjög gott dulargervi því fólk sem hefur þekkt mig lengi þekkir mig ekki lengur úti á götu!“

Að karlmenn vilji heldur ljóskur hefur þó farið framhjá Birgittu. 

„Karlmenn gefa mér engan gaum og það er eins og ég sé ósýnileg,“ svarar hún í gríni. „Ég pæli annars ekkert í slíku. Ég nenni ekki út á lífið og er rosalega heimakær. Prófaði þó að dansa sjóðheitt salsa í sumar, sem var ótrúlega skemmtileg upplifun og ég reikna með að gera aftur. Það er svo hollt að dansa.“

Spurð um viðbrögð þingheims þegar hún birtist öllum að óvörum með ljósa lokka á eldhúsdagsumræðum í vor, segir Birgitta samstarfsfólkið vant því að hún brjóti siðareglur í klæðaburði, en hún er kjólamanneskja fram í fingurgóma og fer í fjallgöngur í kjól og góðum skóm.

„Ég upplifði að vera loks komin í ljóskuklúbbinn. Ég sagði fólkinu að ég væri að reyna að vera eins og það, sem féll í góðan jarðveg. Sjálf er ég rétt farin að venjast mér með ljósan kollinn en hrökk alltaf í kút þegar ég leit í spegil til að byrja með.“

Birgitta segir æðislegt að vera orðin fimmtug. Vísir/Laufey

Frá náttúrunnar hendi er hár Birgittu er svarbrúnt, þykkt og liðað. 

„Ég er komin af Indjánum og Frökkum aftur í ættir. Hárið er sterkt og gott en sem krakki gerði ég tilraunir til að slétta krullurnar með straujárninu hennar mömmu,“ segir Birgitta en kveðst annars ekkert fylgjast með tísku.

„Þó hef ég óvart lent í miðjum tískustraumi og fann til dæmis gleraugu með risastórri Silhouette ‘67-umgjörð í eldgamla daga, sem aðrir ýmist fussuðu yfir eða dáðust að. Skömmu síðar urðu stórar umgjarðir hæstmóðins og þá urðu mínar að hátískugleraugum og ég allt í einu sú svalasta með þau á nefinu,“ segir Birgitta og skellihlær.

Æðislegt að verða fimmtug
Birgitta kom í heiminn 17. apríl 1967 og varð fimmtug í vor. Hún hefur þó enn ekki gefið sér tíma til að halda upp á fimmtugsafmælið.

„Ég nenni ekki að halda stór­afmæli með lofræðum sem passa betur í jarðarfarir. Mig langar í listrænan gjörning og halda upp á fólkið sem hefur verið hluti af lífi mínu. Ég mun því freista þess að fá vini mína til að sýna mér stutt listræn atriði í stað ræðna á opnu berja- og freyðivínshúsi í haust,“ segir Birgitta kát og þakklát fyrir að vera á lífi.

„Á mínum uppvaxtarárum var það endastöð fyrir konur að verða fimmtugar en nú er öldin önnur. Mér finnst æðislegt að geta sagst vera hálfrar aldar gömul, þótt kallarnir séu svo heppnir að geta kallað sig fimmtíukall!“

Býður sig ekki fram að nýju
Birgitta tók fyrst sæti á Alþingi árið 2009 en segist aldrei hafa stefnt að því að verða stjórnmálamaður.

„Ég er varla enn búin að meðtaka að ég sé þingmaður, sem er gott því þá hefur maður ekki tekið of mikið vald inn í sig.“

Hún segist ekki munu bjóða sig fram að nýju.

„Ég ætla ekki að halda áfram eftir þetta kjörtímabil, sama hvort það verður stutt eða langt. Það er ekki hollt að vera of lengi á þingi, sama hvað fólk segir. Enginn er ómissandi og sannarlega ekki ég. Mín bíða ótal verkefni sem kraftar mínir nýtast betur til en upplýsi um það nánar þegar nær dregur.“

Birgitta ætlaði sér að hætta á þingi eftir síðasta kjörtímabil en gaf kost á sér til að miðla þekkingu sinni í stórum hópi nýrra Pírata sem skorti reynslu af þingstörfum. 

„Í mínum huga er starf þingmannsins samfélagsþjónusta og þegar upp verður staðið vonast ég til að hafa gert gagn. Við lifum á ögrandi tímum í heiminum og brýnt að vera þar sem maður nýtist best. Starfið er gefandi en að sama skapi þykir mér erfitt að vera ekki í aðstöðu til að breyta hlutum sem þarf að breyta. Hefði enginn haft hugrekki til að setja á hitaveitu í stað olíukyndingar væru Íslendingar ekki með sömu lífsgæði. Ég er hræddust við stöðnun. Fólk þarf að hætta að vera hrætt við breytingar því lífið er samfelld breyting og ekki til neinn stöðugleiki. Stöðugleiki merkir stöðnun og allir sem horft hafa á vötn sem fá ekki ferskt vatn í sig horfa upp á lífríkið smám saman súrna og deyja.“

Samfélagslegt tilraunadýr
Dugandi geðheilbrigðiskerfi brennur á Birgittu á komandi haustþingi. 

„Við verðum að búa til skjótvirka geðheilbrigðisstefnu sem virkar frá vöggu til grafar. Það er hrikalegt hvað margir falla á milli og hvað lítið þarf til úrlausna. Með nokkrum litlum aðgerðum gætum við losað fólk við ótta, kvíða og óþægindi og veitt þeim stuðning sem á þurfa að halda til að vera virkir í samfélaginu,“ segir Birgitta.

Í gegnum sína nánustu hefur hún reynt á eigin skinni hvað mikið vantar upp á í geðheilbrigðiskerfinu. 

„Ég hef litið á mig sjálfa sem samfélagslegt tilraunadýr, því ef eitthvað getur mögulega farið úrskeiðis þá fer það alltaf úrskeiðis hjá mér. Það er ágætis veganesti í þessari vinnu, að skilja mótlæti fólks á lífsleiðinni. Okkur bráðvantar skjótvirkar leiðir til að tilkynna misbresti í reglum og lögum svo hægt sé að laga þá strax í stað þess að bregðast við alltof seint.“

Birgitta hefur góða von um að fá alla þingmenn í lið með sér en hún er jafnan spenntust fyrir því sem menn telja ógerlegt. 

„Mér hefur tekist að fá í gegn hluti sem virst hafa ómögulegir. Mig langar líka að laga reglugerða­farganið sem viðkemur húsnæðismálum þannig að hægt sé að veita undanþágur. Það er ótrúlegt að ekki sé til neyðarhúsnæði hjá sveitarfélögum til að brúa millibilsástand hjá foreldrum sem finna ekki húsnæði í húsnæðiseklu, í stað þess að taka börnin af þeim. Slíkt er ekki boðlegt,“ segir Birgitta og kveður erfiðast að geta ekki lagað hlutina upp á sitt eindæmi á þingi, því meirihluta þingmanna þurfi til.

„Þingmenn í stjórn og stjórnarandstöðu þurfa að horfa fram hjá flokkslínum og skoða hvað við getum gert saman. Á komandi hausti vona ég að fólk hætti póli­tískum leikjum því saman getum við gert svo margt fyrir þjóðina. Frá unglingsárum hefur minn helsti drifkraftur falist í því að fá fólk af ólíkum sviðum til að vinna saman að sameiginlegum markmiðum og ég hef aldrei skilið þörfina til að marka sér svæði. En svo framarlega sem maður á sér heiðarleg markmið og gerir sitt besta er maður á réttri leið.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.