Innlent

Hrím hönnunarhús braut lög með hærri launum til karls

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Fólkið að baki Hrími hannaði kynjagleraugun árið 2010.
Fólkið að baki Hrími hannaði kynjagleraugun árið 2010. Vísir/Pjetur

Hrím hönnunarhús braut gegn ákvæðum jafnréttislaga með því að borga kvenkyns starfsmanni lægri laun en starfsbróður hennar. Eigendur verslunarinnar töldu sig fara eftir lögum og eru daprir yfir niðurstöðunni.

Umræddur starfsmaður, Ragnheiður Stefánsdóttir, hóf störf hjá fyrirtækinu í september í fyrra. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur en henni tjáð að launin væru eftir föstum taxta. Eftir að hún fékk fastar vaktir var dagvinnukaup 1.700 krónur á tímann en yfirvinnutaxti 2.300 krónur. Í nóvember var ráðinn karlkyns starfsmaður í verslunina og að jólatörninni lokinni komst Ragnheiður að því að hann hafði fengið 2.000 krónur á tímann í dagvinnu en 2.500 krónur í yfirvinnu. Þegar því var hafnað að greiða henni jafn há laun og karlinum sagði hún upp störfum.

„Þetta mál hjá mér snýst því ekki um peninga eða bætur heldur vissi ég að það hefði verið brotið á mér. Ef ég hefði ekki leitað til kærunefndarinnar þá hefði mismununin mögulega haldið áfram í framkvæmd,“ segir Ragnheiður. „Þetta var réttlætismál fyrir mér og ég vona að Hrím komi vel fram við alla starfsmenn sína sama af hvoru kyni þeir eru og greiði sömu laun fyrir jafn verðmæt störf.“

Ragnheiður Stefánsdóttir

Einar Örn Einarsson, fjármálastjóri Hríms, segir niðurstöðuna vonbrigði. Hrím og stofnendur þess hafi alla tíð lagt sig fram í jafnréttismálum og meðal annars hannað kynjagleraugun sem seld voru á haustmánuðum 2010. Einar rekur Hrím ásamt eiginkonu sinni, Tinnu Brá Baldvinsdóttur, en hún er annar stofnandi verslunarinnar.

„Þarna er um að ræða tvo starfsmenn, sinn í hvoru starfinu sem eru gjörólík í eðli sínu. Annars vegar fastráðinn karlmann og konu í helgarstarfi. Við vorum með sérstakan taxta fyrir fastráðna og annan fyrir helgarstarfsfólk auk þess sem starfsskyldur voru ekki þær sömu,“ segir Einar.

Ekki voru gerðir skriflegir ráðningarsamningar þess efnis. Í niðurstöðu kærunefndarinnar segir að þar sem engin gögn séu til um starfsskyldur, kaup og kjör, verði það lagt til grundvallar að starf Ragnheiðar hafi verið jafn verðmætt og starf karlkyns samstarfsfélaga hennar. Að auki benti nefndin á að ólöglegt sé að mismuna starfsmönnum eftir starfshlutfalli.

„Okkur fannst geggjað að ráða karl til starfa en þetta hafði verið mikill kvennavinnustaður. Við réðum hann inn á sömu launum og konurnar í föstu starfi. Hefðum við ráðið inn konu hefðum við sennilega ekki brotið nein jafnréttislög,“ segir Einar. Hann segir aðstandendur Hríms ekki hafa ákveðið hvort farið verði með málið lengra. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.