Innlent

Önnur kona svaraði í símann svo fyrrverandi náði í hafnaboltakylfu, setti klút yfir andlitið og mætti í heimsókn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Konan segist hafa ætlað að face-a sinn fyrrverandi og því hringt í hann. Henni hafi brugðið þegar önnur kona svaraði í símann.
Konan segist hafa ætlað að face-a sinn fyrrverandi og því hringt í hann. Henni hafi brugðið þegar önnur kona svaraði í símann. Vísir/Daníel
Kona hefur verið úrskurðuð í áframhaldandi gæsluvarðhald til föstudagsins 4. ágúst fyrir tilraun til manndráps eða stórfellda líkamsárás gagnvart fyrrverandi kærasta sínum aðfaranótt mánudagsins 5. júní. Árásin átti sér stað í fjölbýlishúsi í Reykjavík en svo virðist sem öfundsýki hafi verið ástæðan fyrir árásinni.

Konan réðst á sinn fyrrverandi vopnuð hafnaboltakylfu og hnífi og er gefið að sök að hafa stungið hann í hægra brjóstið. Hlaut maðurinn skurð sem náði niður í mjúkvefi og var nærri slagæð vöðva sem sérfræðingur á slysa- og bráðadeild Landspítalaháskólasjúkrahúss telur að hefði getað leitt af sér lífshættulega blæðingu inn á lunga, hefði hnífurinn snert æðina.

Var konan úrskurðuð í gæsluvarðhald í kjölfar árásarinnar og hefur það nú verið framlengt í tvígang, síðast til 4. ágúst.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu krafðist gæsluvarðhalds yfir konunni á grundvelli rannsóknarhagsmuna fyrstu dagana. Síðan hefur hún verið í haldi á grundvelli almannahagsmuna.Vísir/gva
Sagðist hlakka til að hitta þau

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að konan hafi hringt ítrekað í sinn fyrrverandi umrætt kvöld en sá ekki nennt að tala við hana. Var hann með þremur vinum sínum og einni konu sem hann lét svara í símann í eitt skipti.

Kærastan fyrrverandi brást við með því að skella á og sendi skömmu síðar smáskilaboð í farsíma mannsins þar sem hún sagðist hlakka til að hitta þau. Skömmu síðar var bankað upp á og var konan þá mætt í félagi við annan mann. Höfðu þau klúta fyrir andlitum sínum og konan hélt á kylfu sem hún sló sinn fyrrverandi með.

Í framhaldinu tókust þau á sem lauk með því að maðurinn lá eftir með stungusár. Vitni sem átti leið framhjá húsinu umrædda nótt sagðist hafa heyrt mikil öskur koma frá kjallara hússins. Vitnið hefði heyrt einhvern kalla „hún stakk hann, hún stakk hann“ og konan hafi spurt félaga sinn „hvar er hnífurinn minn, hvar er kylfan mín?“. Félagi konunnar hafi svarað: „Ég faldi dótið“.

Lögregla fann blóðugan hníf og kylfu við leit í garðinum sem talinn er tengjast málinu.

Konan hefur setið í gæsluvarðhald frá því daginn eftir árásina.Vísir/Stefán
Ætlaði að „face-a“ eða hræða fyrrverandi

Framburður konunnar hefur tekið töluverðum breytingum í þremur yfirheyrslum hjá lögreglu.

Í frumskýrslu um nóttina sagðist konan hafa ætlað að „face-a“ sinn fyrrverandi af því hún var þreytt á því hvernig sambandi hennar og hennar fyrrverandi væri háttað. Henni hafi brugðið þegar önnur kona svaraði í símann. Hún hafi því farið heim til hans og ráðist á hann.

Í skýrslutöku daginn eftir sagðist hún hafa farið til mannsins til að skila honum lyfjum. Hún hefði vopnast hafnaboltakylfu og rafbyssu vegna hótana sem hin konan hafði í frammi í samtalinu kvöldið áður. Hún myndi eftir því að hafa slegið manninn tveimur höggum með hafnaboltakylfunni, hann náð henni í gólfið en svo myndi hún ekki meira.

Í þriðju skýrslutöku, þann 26. júní, sagðist konan hafa hringt í manninn til að skila honum lyfjum. Þegar önnur kona svaraði hafi hún fundið til mikillar reiði og afbrýðisemi. Hafi hún heyrt í félaga sínum með það að markmiði að fara og hræða sinn fyrrverandi og konuna.

Sótti búning heim til sín

Á leiðinni sótti hún búning, linsur og kylfuna heim til sín auk grímu. Vinur hennar hafi skutlað þeim og hún látið samverkamanninn hafa klút til að hylja andlitið. Hún hafi verið með hníf í vasanum en hann hafi hún alltaf á sér. Þau hafi komið sér inn í sameign húsnæðisins, bankað á hurð brotaþola og hann opnað.

Í framhaldinu sló hún manninn í höfuðið með kylfunni, hann hafi borið hendur fyrir sig og hún þá slegið hann öðru höggi í hönd hans. Hún hafi svo ýtt manninum inn í íbúðina. Þar hafi verið rafbyssa á borði sem hún hafi látið félaga sinn hafa.

Að sögn konunnar tókust þau á og enduðu fyrir utan íbúðina þar sem hennar fyrrverandi náði henni niður. Hún hafi sparkað með fótunum og svo áttað sig á því að hennar fyrrverandi var með hníf hennar og otað að henni. Hún náði hnífnum af manninum og við það skorist á hendi. Félagi hennar hafi þá skorist í leikinn, tekið hnífinn og hún þá áttað sig á því að fyrrverandi var allur í blóði. Í framhaldinu mætti lögregla á vettvang.

Konan segist ekki hafa ætlað að drepa manninn heldur aðeins hræða hann. Félagi konunnar tekur undir þetta í skýrslutöku hjá lögreglu. Vitnisburður hans er svo til sá sami og konunnar nema hann segist ekki hafa vitað af hnífnum. Þá hafi hann aldrei séð fyrrverandi kærasta konunnar handleika hnífinn í átökunum líkt og konan heldur fram.

Brot varða allt að sextán ára fangelsi

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði konuna í gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna til 4. ágúst en þann úrskurð kærði lögmaður konunnar til Hæstaréttar. Hæstiréttur hefur nú staðfest úrskurðinn í héraði.

Dómarar í málinu eru sammála um að skilyrði fyrir gæsluvarðhaldi séu uppfyllt þar sem konan sé grunuð um brot sem geta varðað allt að sextán ára fangelsi, í tilfelli tilraunar til manndráps, eða tíu ára fangelsi í tilfelli stórfelldrar líkamsárásar.

Dóm Hæstaréttar má nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×