Innlent

Neytendasamtökin hvetja fólk til að nota meiri sólarvörn

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Miða á við fulla lúku af sólarvörn, segja Neytendasamtökin.
Miða á við fulla lúku af sólarvörn, segja Neytendasamtökin.
Neytendasamtökin hvetja fólk til þess að huga vel að sólarvörn áður en haldið er út í góða veðrið, í nýrri frétt á vefsíðu samtakanna. Bæði þurfi að bera vel á allan líkamann og velja skuli almennilega vörn. Þá sé ekkert samhengi á milli verðs og gæða.

„Þeir sem sleikja sólina ættu ávallt að nota sólarvörn til að verjast skaðlegum geislum sólar og hana ætti alls ekki að spara. Nauðsynlegt er að nota vel af sólaráburði og ágætt er að miða við að fullu lúku af kremi þurfi á allan líkamann,“ segir í fréttinni.

Bent er á að til þess að tryggja næga vörn þurfi að bera sólarvörn jafnt á húðina, þekja vel og helst fara tvær umferðir. Þá eigi að bera sólarvörn á húðina 20 mínútum áður en farið er út í sólina.

Jafnframt er vísað til fréttar í danska neytendablaðinu Tænk þar sem fram kemur að ekkert samhengi sé á milli verðs og gæða. Bestu einkunnina fái sólarvörn frá Levevis, en hún er jafnframt ódýrust. Krem frá Clinique, Piz Buin og Clarins vermi hins vegar botninn.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×