Innlent

Hjóluðu í mark á Laugarvatni í samkenndarhug

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Einn er talinn alvarlega slasaður eftir slysið á Skálholtsvegi við Brúará í kvöld.
Einn er talinn alvarlega slasaður eftir slysið á Skálholtsvegi við Brúará í kvöld. Vísir

Keppendur í hjólreiðakeppninni Gullhringnum héldu áfram keppni eftir alvarlegt slys við Brúará fyrr í kvöld er fimm hjólreiðamenn skullu saman. Einar Bárðarson, talsmaður keppninnar, segir þá sem stadda voru fyrir aftan slysið hafa hjólað saman í halarófu í mark og mikil samkennd ríki í hópnum.

Keppni þeirra sem staddir voru fyrir aftan slysið í kvöld var breytt í samhjól í fylgd björgunarsveita og hún kláruð við Laugarvatn. Keppendur fyrir framan slysið héldu áfram keppni.

Í samtali við Vísi segir Einar að samhugur ríki í hópnum sem safnaðist saman í grillveislu að loknum hjólreiðum.

„Allir sem voru fyrir aftan slysið, þeirri keppni var hætt og þeir hjóluðu í skemmtilegri halarófu inn á Laugarvatn og eru hér í góðum gír í grillveislu,“ segir Einar.

„Þannig að við ætlum að eiga góða stund saman og það er mikil samkenndarstemning í mönnum.“ Hann segir hug aðstandenda keppninnar enn fremur vera hjá þeim slösuðu.

Þá segir Einar að einn keppenda, sem lenti í slysinu, hafi sent frá sér stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann var í sjúkrabíl á leið á spítala. Sá segir líðan sína hafa verið betri en fyrst á horfðist.

Fimm hjólreiðamenn skullu saman á Skálholtsvegi við Brúará nú í kvöld. Einn er talinn alvarlega slasaður og þrír minna slasaðir. Sá fimmti er talinn hafa sloppið ómeiddur. Þyrla landhelgisgæslunnar var kölluð á staðinn til að flytja slasaða á sjúkrahús.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.