Þá er búið að fresta þremur tónleikum til viðbótar en þetta er gert samkvæmt læknisráði og til að minnka álag en á Facebook-síðu hljómsveitarinnar segir að greining læknisins á veikindum Jökuls hafi verið ófyrirséð.
Tónleikarnir sem sveitin hefur aflýst áttu að fara fram á tímabilinu 28. júní til 20. ágúst, meðal annars á tónlistarhátíðinni Rock Werchter í Hollandi,í Orlando í Bandaríkjunum, í París í Frakklandi og í Tókýó í Japan.
Álag og streita vegna stanslausra tónleikaferðalaga líklega ástæða veikindanna
„Það sem ég get sagt er að ég hef það gott,“ segir Jökull í samtali við Vísi aðspurður um veikindi sín.
Hann kveðst hafa verið í rannsóknum hjá lækni en að líklega megi rekja þetta til álags og streitu vegna stanslausra tónleikaferðalaga undanfarin ár.
„Við höfum verið að spila um 300 daga á ári síðustu ár og því lítill tími til að hvílast,“ segir Jökull.
Hljómsveitin mun spila eins mikið og mögulegt er í sumar.
„Svo erum við með okkar „Kaleo Express“-túr í haust um allan heim svo það er nóg framundan. Ég er líka á fullu að einbeita mér að því að klára nýja tónlist fyrir næstu plötu. Svo gefst vonandi tækifæri til að koma eitthvað meira heim til Íslands í sumar og hlaða batteríin,“ segir Jökull.
Kaleo nýtur mikilla vinsælda um allan heim og plata þeirra A/B hefur selst afar vel. Þeir komu meðal annars fram á Coachella-tónlistarhátíðinni í Kaliforníu í apríl og þá voru þeir valdir besta nýja rokkhljómsveitin síðasta árs af Billboard.
Uppfært klukkan 19:40.