Innlent

Tæknideild lögreglu útilokar að ekið hafi verið á hjólreiðamanninn sem fannst meðvitundarlaus

Birgir Olgeirsson skrifar
Maðurinn var á leið niður bratta brekku á Nesjavallaleið vestan megin við Dyrfjöll.
Maðurinn var á leið niður bratta brekku á Nesjavallaleið vestan megin við Dyrfjöll. Loftmyndir ehf.
„Hann er alvarlega slasaður,“ segir Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurlandi, um hjólreiðamanninn sem fannst meðvitundarlaus á Nesjavallaleið um klukkan 14 í gær.

Hjólreiðamaðurinn var fluttur á Landspítalann í Fossvogi eftir að vegfarendur höfðu komið að manninum og gert lögreglu viðvart.

Þorgrímur segir lögreglu vita lítið um tildrög slyssins, en tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafi útilokað að ekið hafi verið á hjólreiðamanninn.

„Við vitum ekki um aðdragandann annað en að hann er að fara þarna niður bratta brekku, sem er síðasta brekkan sem er vestan megin við Dyrfjöll,“ segir Þorgrímur Óli.

Hann segir aðstæður á vettvangi hafa verið góðar, þurrt, níu stiga hiti og hægur vindur.

Þó ekki sé vitað hvað hjólreiðamaðurinn lá lengi meðvitundarlaus í götunni þá telur Þorgrímur Óli að það hafi ekki verið langur tími, því það sé alltaf einhver á ferðinni á þessum slóðum.

Hann telur hjólið sjálft ekki hafa verið svo illa farið, en það fannst vinstra megin á veginum en hjólreiðamaðurinn var skammt frá.

Maðurinn er erlendur ferðamaður en lögreglan ætlar ekki að gefa upp þjóðerni hans að svo stöddu. Sendiráð mannsins hefur gert aðstandendum hans viðvart.

Lögreglan á Suðurlandi biður alla þá sem gætu haft upplýsingar um málið að hafa samband í síma 444-2000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×