Lífið

Sjóðheitur á ísköldum toppi vinsældalista

Benedikt Bóas skrifar
Kaleo, Jökull Júlíusson, Davíð Antonsson, Daníel Ægir Kristjánsson, Rubin Pollock
Kaleo, Jökull Júlíusson, Davíð Antonsson, Daníel Ægir Kristjánsson, Rubin Pollock
„Þetta eru auðvitað frábærar fréttir og skemmtilegt þar sem ég samdi lagið einmitt á Spáni fyrir nokkrum árum,“ segir Jökull Júlíusson, söngvari Kaleo, en lagið Way down we go trónir núna í efsta sæti vinsældalistans á Spáni.

Lagið hefur verið vinsælt víða um Evrópu en auk Spánar fór lagið í fyrsta sæti í Austurríki, Sviss og Grikklandi. Lagið hefur einnig verið í toppsætunum í Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu og Ástralíu.

Á síðasta ári fór lagið í fyrsta sæti Billboard-listans í Bandaríkjunum í flokki „alternative“ tónlistar. Lagið náði gullsölu þar í landi eða yfir 500 þúsund seldum eintökum en það kom út í október í fyrra.

Þá er lagið gríðarlega vinsælt í Úkraínu og hljómaði ótt og títt þegar Eurovisionkeppnin stóð þar yfir.

Kaleo spilar á hinum ýmsu tónlistarhátíðum í Evrópu, Ameríku og Asíu þangað til Kaleo Express túrinn hefst seinna í haust. Dagskráin hjá bandinu er þétt skipuð og lítill tími til að gera annað en spila tónlist. Þó brá Jökull sér á Rammstein-tónleikana í Kórnum og skemmti sér vel.

Hljómsveitin spilar í Bandaríkjunum á sex tónleikum áður en hún heilsar Evrópu þann 18. júní þegar Keleo spilar á Best kept secret hátíðinni í Hollandi.

„Við verðum mikið að spila í Evrópu bæði í sumar og haust og mikil tilhlökkun í mönnum,“ segir Jökull. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.