Innlent

Óraði ekki fyrir vinsældum Fidget-Spinner

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Vinsældir Fidget-Spinner eða þyrilskífunnar hafa náð nýjum hæðum hér á landi og hefur hver sendingin á fætur annarri selst upp hjá innflytjendum. Framkvæmdastjóra ADHD samtakanna óraði ekki fyrir vinsældunum þegar ákveðið var að flytja þetta inn.

Íslendingar eru fljótir að hoppa á vagninn þegar vinsældarbylgjur fara í gegnum heimsbyggðina. Fidget Spinner eða þyrilskífa er sú nýjasta og vinsælasta tækið á Íslandi í dag.

Leikfangið er einnig þekkt undir öðrum nöfnum eins og þyrilsnælda, þeytispjald og fiktisnælda. ADHD samtökin hófu innflutning á tækinu til fjáröflunar í febrúar og komu vinsældir þess framkvæmdastjóranum í opna skjöldu.

„Þetta er auðvitað eins og með svo margt annað. Við Íslendingar tökum flesta hluti ef ekki alla með trompi. Þetta kemur fyrst og síðast í gegnum krakkana. Ein fær og annar þarf og svo framvegis, en þetta kom okkur satt að segja mjög á óvart hversu ofboðsleg sprengja varð,“ segir Þröstur Emilsson, framkvæmdastjóri ADHD-samtakanna.

ADHD samtökin hafa um nokkra hríð selt svokallað fiktkubba og önnur tæki en öll hafa þau reynst einstaklingum með ADHD greiningu vel.

„Þetta hjálpar líka til við einbeitinguna. Við höfum séð einmitt einstaklinga í okkar hópi sem þurfa að hafa mörg járn í eldinum á sama tíma, það eykur einbeitinguna,“ segir Þröstur.

Þröstur segir að flestir ef ekki allir hafi einhver fiktþörf, sama hvað þeir hafi fyrir stafni „Sjáðu menn og konur á fundum með pennana eða eitthvað til að fikta í. Já, við höfum öll fiktþörf. Mismikla,“ segir Þröstur.

Og Þröstur segir að þróun sé í þessum efnum eins og öðrum.

„Það er geggjuð þróun í þessu og það eru bæði útlit og litir og allskonar mynstur en svo hafa menn verið að taka í staðinn fyrir legurnar í örmunum að þá er búið að koma fyrir LED-ljósum, það er ofboðslega flott,“ segir Þröstur.

Ertu góður í þessu?

„Nei, ég er það ekki. Ekki miðað við guttana sem að ég hef verið að sjá sem að eru með sitthvorri hönd og flippa á milli, þá er ég skussi,“ segir Þröstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×