Lífið

Söng með Svölu og þakkaði fyrir boðskapinn um kvíðann

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Nevo Lederman er gallharður aðdáandi Svölu Björgvinsdóttur frá Ísrael.
Nevo Lederman er gallharður aðdáandi Svölu Björgvinsdóttur frá Ísrael. Skjáskot/Youtube
„Um leið og ég heyrði lagið þá vissi ég að boðskapurinn var ætlaður mér. Því ég þjáðist af kvíða og þunglyndi í mörg ár,“ segir Nevo Lederman, gallharður aðdáandi Svölu Björgvinsdóttur frá Ísrael.

„Þegar ég heyrði Paper þá skildi ég strax myndlíkinguna við myrkrið og ljósið og vonina sem Svala gefur öllum. Síðan fór ég að fylgjast með henni og varð strax mikill aðdáandi.“

Nevo datt svo í lukkupottinn þegar hann hitti Svölu í íslendingapartýinu í Kænugarði í síðustu viku.

„Ég talaði við hana og þakkaði henni fyrir boðskapinn og fyrir að koma með hann á stærsta svið í heimi – Eurovision. Og fyrir að hjálpa okkur og fyrir hennar listsnilli. Ég fékk að syngja með henni, sem var algjör draumur, ég elska hana svo mikið. Ég var niðurbrotinn og vonsvikinn að hún kæmist ekki áfram í úrslitin.“

Nevo er mikill aðdáandi íslenskrar dægurmenningar og hyggst sækja landið heim þegar boðið verður upp á beint flug frá Tel Aviv til Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×