Innlent

Tveir menn í haldi grunaðir um að smygla nokkrum kílóum af sterkum fíkniefnum

Birgir Olgeirsson skrifar
Földu efnin í bíl sem komið var með til landsins með Norrænu í síðustu viku.
Földu efnin í bíl sem komið var með til landsins með Norrænu í síðustu viku. Vísir/GVA
Tveir erlendir karlmenn voru úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald á föstudag grunaðir um að smygla talsverðu magni af sterkum fíkniefnum til landsins. Fréttastofa Ríkisútvarpsins greindi fyrst frá málinu en Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við Vísi að ekki sé búið að greina fíkniefnin en um sé að ræða nokkur kíló af einhverju sem lögreglu grunar að séu örvandi efni.

Efnunum var smyglað til landsins í bíl sem annar maðurinn kom með til landsins með skipinu Norrænu síðastliðið þriðjudagskvöld. Grímur vill ekki gefa upp í samtali við Vísi hvernig lögreglan komst á snoðir um efnin, en maðurinn hélt leið sinni áfram frá Seyðisfirði til höfuðborgarsvæðisins þar sem hann var handtekinn ásamt hinum manninum, sem hafði komið til landsins nokkru áður, og hald lagt á fíkniefnin.

Grímur segir rannsókn lögreglu enn í fullum gangi og lítið hægt að tjá sig um stöðu mála.

RÚV segir bílinn hafa verið settan um borð í Norrænu í Hirtshals á Jótlandi í Danmörku.

Rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, tollgæsla og lögregla á Austurlandi og ríkislögreglustjóri komu að rannsókn þessa máls að sögn Gríms.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×