Innlent

Kúabændum fækkar og fækkar

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar

Kúabændum hefur fækkað um tæplega tvö hundruð á síðustu þrettán árum en á sama tíma hafa kýrnar aldrei mjólkað eins mikið. Fjörutíu kúabændur hættu búskap á síðasta ári.

Aðalfundur Auðhumlu sem er samvinnufélag kúabænda var haldinn nýlega á Selfossi. Þar kom fram að síðasta ár var metár í framleiðslu og sölu mjólkur.

„Já, það er stærsta mjólkurframleiðsluár í sögu íslenskra mjólkurframleiðanda, 150 milljónir lítra sem er gríðarleg framleiðsla. Sem betur fer tókst svo vel til að það tókst að selja um 140 milljónir lítra á innlendum markaði þannig það er semsagt líka met,“ segir Garðar Eiríksson, framkvæmdastjóri Auðhumlu.

Í dag eru 548 mjólkurframleiðendur hjá Auðhumlu og 48 kúabændur eru í Skagafirði sem leggja inn hjá Kaupfélagi Skagfirðinga. Kúabændum fækkar stöðugt, þeir voru t.d. 2.500 árið 1978 og fjöldin var komin niður í 730 árið 2003. Þrátt fyrir þessa miklu fækkun eykst og eykst mjólkurframleiðsla í landinu.

„Það er þessi góði árangur sem íslenskir bændur hafa náð með ræktun og fóðri og aðbúnaði öllum. Íslenski bóndinn hann stendur sig vel.“

En hafa menn ekki áhyggjur af því hvað kúabændum fækkar ört á Íslandi?

„Nei, ég held þetta sé bara þróunin. Það er fjárfest í aukinni tækni, nýjum fjósum, róbótum og öðrum slíku. Tæknin auðveldar það að framleiða meiri mjólk í einingunni og ég held þetta sé bara eðlileg þróun.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.