Innlent

Akureyska lögreglan segir þróunina neikvæða

Sveinn Arnarsson skrifar
Frábær tilþrif sjást í Listagilinu á laugardagskveldi eins og þessi ljósmynd ber glöggt vitni.
Frábær tilþrif sjást í Listagilinu á laugardagskveldi eins og þessi ljósmynd ber glöggt vitni. vísir/anton
„Við höfum séð ákveðna þróun í neikvæða átt varðandi þessa hátíð. Meiri áhersla er lögð á skemmtanahald og næturlíf og því fylgir meiri erill fyrir okkur,“ segir Daníel Guðjónsson, yfirlögregluþjónn á Akureyri, um vetraríþróttahátíðina AK Extreme sem haldin var um síðustu helgi.

Á annað hundrað mála voru færð í bækur lögreglu þessa helgi sem eru mun fleiri mál en á venjulegri helgi í apríl að mati lögreglu. Daníel segir þessa helgi geta orðið eina af stóru helgum ársins hjá lögreglunni, líkt og Bíladagahelgin og verslunarmannahelgin, ef fram heldur sem horfir. „Við höfum svo sem ekkert á móti þessari helgi og hún á sannarlega rétt á sér. Hins vegar mætti fækka þessum málum sem inn á okkar borð koma.“

Til að mynda voru sex einstaklingar kærðir fyrir fíkniefnaakstur, maður kærður fyrir ólöglegan vopnaburð og einn settur í varðhald þar sem hann sturlaðist af fíkniefnaneyslu. Átta einstaklingar gistu fangageymslur þessa helgi sem er nokkuð mikið að mati lögreglunnar.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×