Innlent

Eldur á þremur hæðum í kísilveri United Silicon í Helguvík

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Verksmiðja United Silicon í Helguvík.
Verksmiðja United Silicon í Helguvík. Vísir/Jóhann K.
Eldur kom upp í kísilveri United Silicon í Helguvík um klukkan fjögur í nótt. Að sögn Jóns Guðlaugssonar, slökkviliðsstjóra á Suðurnesjum, er slökkvistarfi nú að ljúka en slökkviliðið verður áfram með öryggisvakt við verksmiðjuna.

„Það logaði eldur í ofnhúsinu á þremur pöllum á fimmtu, sjöttu og sjöundu hæð,“ segir Jón í samtali við Vísi. Hann segir að þó nokkur eldur hafi verið á pöllunum en hann var staðbundinn og engin hætta á að hann myndi breiðast út.

 

Aðspurður segir hann engan hafa sakað í eldinum og enginn starfsmaður kísilverinu hafi verið í hættu þó að vissulega séu það hættulegar aðstæður þegar eldur komi upp í svona verksmiðju þar sem málmar og eldfim efni eru á staðnum.

Tólf slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Suðurnesja tóku þátt í slökkvistarfinu. Eldsupptök eru ókunn en lögregla rannsakar.

Fyrst var greint frá eldsvoðanum á vef Víkurfrétta og hér að neðan má sjá myndband sem þeir tóku af slökkvistarfi í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×