Lífið

Upphafsmaður ananas-pizzunnar: Forseti Íslands var ekki fæddur þegar fyrsta ananas-pizzan fór í ofninn

Birgir Olgeirsson skrifar
Ummæli forseta Íslands um ananas á pizzur hafa vakið heimsathygli. Guðni sagðist mæla með fiskmeti á pizzur en upphafsmaður ananas-pizzunnar segir Íslendinga mikla fisksala og Guðni reyni að viðhalda þeirri hefð með því að mæla með fiskmeti á pizzur.
Ummæli forseta Íslands um ananas á pizzur hafa vakið heimsathygli. Guðni sagðist mæla með fiskmeti á pizzur en upphafsmaður ananas-pizzunnar segir Íslendinga mikla fisksala og Guðni reyni að viðhalda þeirri hefð með því að mæla með fiskmeti á pizzur. Vísir

Það hefði eflaust fáa órað fyrir því að forseti Íslands myndi rata í heimsfréttirnar vegna skoðunar sinnar á því hvort ananas eigi heima á pizzum eða ekki, en sú er raunin. Viðbrögðin hafa verið gífurleg þar sem fjallað hefur verið um þennan smekk Guðna á The Guardian, CNN, Huffington Post, New York Post, Mashable og Foreign Policy.

Til upprifjunar þáði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, boð menntskælinga á Akureyri um að kíkja í heimsókn í Menntaskólann á Akureyri. Guðni mætti þangað á fimmtudag og hélt létt erindi um sögu skólans og sagði skemmtilegar sögur af gömlum nemendum skólans sem hann þekkti.

Opnað var fyrir spurningar sem voru í léttari kantinum líkt og svör Guðna. Þar var hann til að mynda spurður hvert væri uppáhaldsliðið hans í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og var svarið Manchester United. Hann var því næst spurður hver afstaða hans væri til ananas á pizzur og stóð ekki á svari, Guðni sagðist vera alfarið á móti ananas á pizzur og bætti við að gæti hann sett lög um það myndi hann banna ananas á flatbökur.

Vísir greindi frá málinu síðastliðinn fimmtudag og rötuðu þessi ummæli í fréttir erlendra miðla. Guðni sendi svo frá sér tilkynningu í gær þar sem hann útskýrði orð sín frekar á laufléttan hátt og fjölluðu fjölmargir erlendir fjölmiðlar um það.

Sam Panopoulos er sagður hafa gert fyrstu ananas-pizzuna árið 1962.Vísir/Getty

Upphafsmaður ananas-pizzunnar tjáir sig

Á vef kanadísku útvarpsstöðvarinnar, CBC Radio, er rætt Sam Panopoulos sem er sagður hafa fundið upp á Hawaí-pizzunni, eða pizzu með ananas. Það gerðist á veitingastaðnum Satellite í borginni Chatham í Kanada árið 1962

„Þegar ég var að finna upp á ananas-pizzunni þá var forseti Íslands ekki einu sinni fæddur,“ segir Panopoulos þegar hann er spurður út í ummæli Guðna, en Guðni er fæddur árið 1968.

Gafst upp á að reyna að skilja málið

Hann spyr hvers vegna Guðni vill láta banna ananas á pizzur en gefst svo upp á að reyna að skilja það. „Hann getur gert það sem hann vill, mér er sama. Ég fæ ekkert út úr þessu. Hann getur gert það sem hann langar.“

Hann segist aðspurður ekki hafa sótt um einkaleyfi á ananas-pizzuna á sínum tíma. „Ég vildi óska að ég hefði gert það. Þegar ég hins vegar gerði fyrstu ananas-pizzuna var ekkert á bak við það. Þetta var bara eitt brauðið til viðbótar í bökun í ofni.“

Ananas-pizzan vakti ekki hrifningu fyrst en síðan var allt vitlaust

Spurður hvað hafi orðið til þess að hann setti ananas á pizzu segir hann enga gífurlega hugsun hafa verið á bak við þá ákvörðun.

Upphafsmanni ananas-pizzunnar er í raun alveg sama hvað Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur um málið að segjaVísir/Ernir

„Það var engin pizza í Kanada á þessum tíma. Við fengum pizzu frá Detroit og ég var með veitingastað í Chatham. Við fórum til Windsor nokkrum sinnum þar sem pizza fékkst frá Detroit, prufuðum hana og ákváðum að fara að baka þær sjálfir. Við ákváðum að henda ananas á þær og engum líkaði það í fyrstu. En síðan urðu allir vitlausir í það. Á þeim tíma var enginn að blanda saman sætu og súru. Þetta var bara látlaus matur. Þetta hélt sér og við seldum pizzur næstu 40 til 45 árin.“

Hann segir að í dag megi setja allt á pizzu og segist vera sammála forseta Íslands að fiskmeti á pizzur sé lostæti.

„Það er það, en á eftir ananasnum mínum, segðu honum það.“

Íslendingar öflugir fisksalar

Panopoulos er spurður hvort forseta Íslands muni snúast hugur ef Guðni fengi ananas-pizzu frá honum. „Mér er alveg sama hann gerir. Hann getur sagt það sem hann vill,“ svarar Panopoulos og bendir á að Íslendingar séu öflugir fisksalar sem útskýri mögulega hvers vegna Guðni bendir á að fiskmeti sé ákjósanlegt álegg á pizzur.

Viðbrögðin á köflum heiftarleg

En viðbrögðin sem fyrr segir afar mikil þegar kemur að því hvort fólk vill ananas á pizzur. Margir reiðast heiftarlega ef einhver dirfist að lýsa þeirri skoðun að hann vilji ananas á pizzur. Þetta var augljóst af umræðum við fréttir íslenskra fjölmiðla af ummælum Guðna og viðbrögðin eru jafnmikil út í heimi. Mest er þetta nú meinlaust karp en til að mynda er að finna tugþúsundir athugasemda við Facebook-færslu Lad Bible um ummæli Guðna.

Á Vísi var sett upp óformleg skoðanakönnunun þar sem spurt var hvort ananas eigi heima á pizzum. 17.800 manns hafa svarað og segjast sextíu prósent vera þeirrar skoðunar að ananasinn eigi heima á pizzum. Á vef CNN var framkvæmd samskonar könnun þar sem 57,4 prósent segjast vilja ananas á pizzur.

Þeir sem vilja ekki sjá ananas á pizzur nefna oft að ekki eigi að blanda svona sætum ávexti með sterkum mat, aðrir segja bragðið af ananasinum svo ráðandi og að safinn eigi það til að fara yfir alla pizzuna og gera hana þannig ólystuga.

Sigurður Lárus Hall er ekki hrifinn af ananas á pizzur.Vísir/GVA

Ítali fengi taugaáfall

Vísir ákvað að ræða við nokkra kokka um málið og fá þeirra álit á málinu.

Einn þeirra er kokkurinn Sigurður Lárus Hall sem hafði eftirfarandi að segja léttur í bragði: „Ég ætla bara að segja það, mér finnst ananas á pizzur alveg glatað. Ég þoli ekki ananas á pizzur og mér finnst að það eigi bara að banna þetta.“

Hann segir ananasinn ekki eiga heima á flatbökum. Um sé að ræða ítalska matargerð með sterkri pylsu, basilíku, flottu kryddi, tómatsósu og bræddum osti.

„Og setja svo ananas ofan á það? Nei, það bara gengur ekki upp. Ananas á að vera með karamellusósu á ís eða einhverjum karrí-rétti, indverskum mat eða karabískum. En ekki á pizzur. Ég styð forsetann fullkomlega í þessu,“ segir Sigurður.

Hann segir ljóst að ef einhver frá Napolí á Ítalíu kæmi hingað til lands og myndi sjá ananas á pizzum, fengi sá hinn sami taugaáfall. „Pizza er pizza, en ef þetta er brauð með ananas, þá er þetta ekki pizza heldur ananas-brauð,“ segir Sigurður en bætir við að lokum að þeir sem vilja borða ananas megi það svo sannarlega.

„En ég tek ekki þátt í því, frekar en Guðni forseti,“ segir Sigurður hlæjandi.

Hrefna Sætran myndi aldrei panta sér ananas á pizzu á Ítalíu.Vísir/Björn Árnason

Myndi aldrei panta ananas á pizzu á Ítalíu

Kokkurinn Hrefna Sætran segist setja ananas á sínar pizzur á Íslandi en myndi ekki detta það til hugar ef hún væri á Ítalíu.

„Pizzan er upprunalega frá Ítalíu, auðvitað bara örþunnur botn, sósa og ostur og þeir sem hafa smakkað þannig eru nú ekki mikið að klína áleggi á pizzurnar þar en pizzurnar á Norðurlöndunum eru ekkert í líkingu við þessa upprunalegu. Þær eru mun þykkari og með helling af áleggi,“ segir Hrefna.

Verra fyrir meltinguna að setja ananas á pizzuna

Hún segir Ítali og marga í heiminum reyndar ekki hrifna af ananas á pizzu því hann sé frekar blautur og geri þar af leiðandi stökkan pizzu-botn linan.

„Ég myndi aldrei panta mér ananas á pizzu á Ítalíu. Aðrir vilja ekki borða ávöxt á pizzu og finnst það ekki meika sens. Ávextir reyndar meltast hraðar en annað á pizzunni, svo það er staðreynd að það er verra fyrir meltinguna að setja hann á pizzuna en að sleppa honum en fyrir mína parta og pizzuna eins og við þekkjum hana hér á Íslandi þá set ég alltaf ananas á mína pizzu og sérstaklega ef ég er með eitthvað sterkt á henni til að jafna út þetta sterkt/sætt element. Svo eru það þeir sem fýla ekki heitan ananas en það er allt annar handleggur. Ananas á pizzu er svipuð ádeila í heiminum og rúsínur í hrísgrjónagraut fyrir okkur íslendinga. Ætli það liggi nokkuð mikið meira en bragðið á bak við það hjá flestum gæti ég trúað,“ segir Hrefna.

„Ferskur ananas hins vegar er allt annað mál þar er miklu meiri sýra og hann er virkilega góður.“Vísir/Getty

Ferskur ananas allt annað mál

Margrét Ríkharðsdóttir, yfirkokkur á Bryggjunni Brugghúsi, telur að þeir sem hata ananas á pizzur séu ekki hrifnir á sæta bragðinu. Hún bendir á að flestir veitingastaðir sem bjóða upp á ananas á pizzur noti ananas úr dós sem er búinn að liggja í sýrópi. Þegar safinn svo hitnar fer hann um alla pizzuna.

„Ferskur ananas hins vegar er allt annað mál þar er miklu meiri sýra og hann er virkilega góður. En ég set aldrei ananas á pizzu nema að vera með eitthvað sterkt á móti jalapeno - ferskt chili - chili flögur, sterkt pepperoni eða eitthvað álíka það jafnar út þessa sætu sem fólk er ekki að fíla. Það kemur jú fyrir að maður panti sér pizzu vitandi af sæta ananasinum eflaust til þess að ögra sér eitthvað en þá passa eg að hafa nóg af hita þar á móti og þá smellur þetta yfirleitt,“ segir Margrét.

En það er því ljóst að ananas á pizzur er mikið hitamál og verður það eflaust svo lengi sem eftirspurn verður eftir pizzum. Eitt er allavega ljóst að miðað við viðbrögðin þá mun Guðni Th. mögulega þurfa að svara nokkrum spurningum um ananas á pizzur  í opinberum ferðum sínum erlendis á næstunni.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×