Erlent

Harðir bardagar við ISIS-vígið al-Bab

atli ísleifsson skrifar
Al-Bab er síðasta stóra vígi ISIS í Aleppo-héraði í norðurhluta Sýrlands.
Al-Bab er síðasta stóra vígi ISIS í Aleppo-héraði í norðurhluta Sýrlands. Vísir/afp
Tyrkneskur hermaður féll og þrír særðust í hörðum bardögum við borgina al-Bab í norðurhluta Sýrlands í dag. Liðsmenn ISIS ráða ríkjum í al-Bab en tyrkneski herinn sótti inn í borgina ásamt sýrlenskum uppreisnarhópum í gær.

Í frétt SVT kemur fram að bardögunum hafi verið lýst sem þeim hörðustu sem Tyrklandsher hafi tekið þátt í, frá því að hann hóf sókn sína í Sýrlandi í ágúst síðastliðinn.

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti segir að al-Bab sé á engan hátt lokatakmark tyrkneska hersins. „Lokatakmarkið er að hreinsa um fimm þúsund ferkílómetra svæði,“ segir forsetinn, en á umræddu svæði er meðal annars að finna al-Raqqa, helsta vígi ISIS, þar sem í búa um 300 þúsund manns.

Tyrkneski herinn og bandamenn hans hafa sótt hart í átt að miðborg al-Bab og segir Erdogan að einungis sé tímaspursmál þar til ISIS-liðar leggi á flótta.

Al-Bab er síðasta stóra vígi ISIS í Aleppo-héraði í norðurhluta Sýrlands, en sýrlenski stjórnarherinn hefur einnig sótt að borginni úr suðri.

Setið hefur verið um al-Bab í um viku eftir að sýrlenski stjórnarherinn lokaði leiðum suður af borginni. Uppreisnarhópar sem njóta stuðnings tyrkneska hersins höfðu þá þegar lokað leiðum austur, norður og vestur af borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×