Erlent

Átakanlegt myndband UNICEF sýnir viðvarandi vanda sem steðjar að börnum á flótta

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ahmed er 12 ára. Hann flúði frá Damaskus vegna stríðsins í Sýrlandi.
Ahmed er 12 ára. Hann flúði frá Damaskus vegna stríðsins í Sýrlandi.
UNICEF frumsýndi á dögunum áhrifaríkt myndband sem sýnir með sláandi hætti þann viðvarandi vanda sem steðjar að börnum sem þurfa að flýja stríðsátök.

Í myndbandinu, sem sjá má hér að neðan, tvinnast tvær sögur saman en þær gerast með 70 ára millibili. Annars vegar er sögð saga hins 12 ára gamla Ahmed frá Damaskus í Sýrlandi og hins vegar saga hins 92 ára gamla Harry frá Berlín í Þýskalandi. Báðir segja þeir frá því hvernig þeir neyddust til að flýja heimili sín, Ahmed vegna borgarastyrjaldarinnar og Harry vegna síðari heimsstyrjaldarinnar.

Í frétt á vef UNICEF á Íslandi um myndbandið segir að „þrátt fyrir að 70 ár skilji þá að þá eiga þessar tvær sögur margt sameiginlegt og brugðið er upp myndefni af sýrlensku flóttafólki í bland við sögulegt myndefni úr seinni heimsstyrjöldinni.

Í myndinni lýsa Ahmed og Harry hræðilegri lífsreynslu sinni, árásum á heimili og skóla, hvernig þeir neyddust til að flýja af ótta um líf sitt og segja frá háskalegum ferðum bæði á landi og sjó.

Harry fann að lokum griðarstað í Bretlandi þar sem hann hefur búið allar götur síðan en Ahmed komst í örugga höfn í Svíþjóð þar sem hann sameinaðist fjölskyldu sinni og hóf skólagöngu að nýju.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×